Siv Friðleifsdóttir

Kynning á forystumönnum Framsóknar og óháðra á Seltjarnarnesi

14/05/2010

Hér er stutt kynning á Kristjönu Bergsdóttur og Kristjáni Þorvaldssyni, en þau skipa efstu sæti lista Framsóknar og óháðra á Seltjarnarnesi:

1. Kristjana Bergsdóttir

Kristjana er 57 ára gamall kerfisfræðingur frá H.R. sem starfar nú við
hugbúnaðarvinnu hjá HuguAx hugbúnaðarhúsi. Hún er jafnframt menntaður
framhaldsskólakennari með uppeldis- og sálarfræði sem megin greinar. Hún
hefur búið á Nesinu í 18 ár í Hrólfsskálavörinni. Kristjana hefur
talsverða reynslu af þátttöku í félagsstörfum og var bæjarfulltrúi á
Seyðisfirði. Hún sat sem varaþingmaður á alþingi fyrir Austurland.
Kristjana var einnig formaður Landsambands Framsóknarkvenna í nokkur ár og
vann þá að og fékk samþykkta jafnréttisáætlun í Framsóknarflokknum sem
síðan varð öðrum flokkum til fyrirmyndar. Kristjana hefur víðtæka
starfsreynslu m.a. var hún fyrst kvenna á Íslandi til að keyra strætó og
stundaði handfæraveiðar að sumarlagi. Áhugamálin eru mörg m.a.
býflugnarækt og einnig skógrækt. Jafnframt er Kristjana maraþonhlaupari og
hljóp m.a. fyrir mánuði síðan Boston maraþonið og er að æfa fyrir
Laugavegshlaupið 2010. Kristjana er gift Atla Árnasyni lækni og eiga þau 3
börn.


2. Kristján Þorvaldsson

Kristján Þorvaldsson er 27 gamall og starfar sem verkefnisstjóri
hugbúnaðarmála hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hann er stúdent af
eðlisfræðideild I frá Menntaskólanum í Reykjavík og með B.Sc. gráðu í
rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands. Kristján er fæddur og uppalinn á
Miðbrautinni á Nesinu og stundaði knattspyrnu og handknattleik á sínum
yngri árum. Kristján stundaði kennslu samhliða námi í Valhúsaskóla og
Menntaskólanum í Reykjavík ásamt því að vera stundakennari við Háskóla
Íslands. Hann hefur setið í nokkrum starfsnefndum Seltjarnarness og á
núverandi kjörtímabili í skólanefnd. Kristján var einnig formaður
Bæjarmálfélags Seltjarnarness um tíma. Áhugamál Kristjáns er einkum
boltaíþróttir og er hann með harðari stuðningsmönnum AC Milan á Íslandi.
Hann hefur einnig áhuga á raunvísindum og ýmsu er tengist upplýsingatækni.
Kristján er í sambúð með Helenu Sif Magnúsdóttur tölvunarfræðinema.