Siv Friðleifsdóttir

Atkvæðaskýring mín vegna icesave

06/01/2010

Virðulegur forseti. Ég er ekki sátt við niðurstöðuna í Icesave-málinu og segi því nei. Umræður hafa verið harkalegar um Icesave-málið um langt skeið og í reynd klofið þingið í herðar niður, í tvo nánast jafnstóra hópa. Mörg þung og ómakleg orð hafa fallið í umræðunni á báða bóga, bæði í þinginu og úti í samfélaginu. Skýringin er sú að okkur greinir á um hvað er réttast í þeirri stöðu sem við erum í. Ég verð að viðurkenna að mér líkar heldur illa við þær sakbendingar sem hafa fallið oft og tíðum í umræðunni. "Þið berið alla ábyrgðina." "Nei, það eruð þið." Hvorugt er í reynd rétt. Það er mín skoðun að lokinni þessari umræðu að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar hafi verið að gera sitt besta. Þótt okkur greini á hafa báðir þessir hópar verið að gera það sem þeir telja réttast. Við skulum því halda reisn okkar og ró og virða hvert annað þótt tímar séu erfiðir. Þessum orðum beini ég bæði til þingheims og þeirra sem taka Icesave-samningana (Forseti hringir.) nærri sér. Við skulum sýna hvert öðru virðingu þótt okkur greini harkalega á. (Forseti hringir.) Ég segi nei.