Siv Friðleifsdóttir

Svar samgönguráðherra um fjármál sveitarfélaga

14/12/2009

Svar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um fjárhagsvanda sveitarfélaga.

Fyrirspurnin hljóðar svo:
Er ríkisvaldið með áætlanir um að taka á fjárhagsvanda sveitarfélaga með samræmdum hætti? Ef svo er, hvenær?

Ráðuneytið hefur fylgst náið með þróun í fjármálum sveitarfélaga síðustu mánuðina en ljóst er að efnahagskreppan hefur áhrif á öll sveitarfélög með einum eða öðrum hætti. Ráðuneytið hefur kappkostað að eiga gott samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin almennt um þessi málefni, auk samráðs eftir atvikum við einstök sveitarfélög. Hið nána samráð hefur m.a. leitt til þess að gripið hefur verið til ýmissa aðgerða til að skapa sveitarfélögunum betra svigrúm til að takast á við vandann. Hámarksútsvar var t.d. hækkað um 0,25 prósentustig um síðustu áramót, aukaframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga að einum milljarði króna var tryggt á þessu og næsta ári, auk ýmissa lagabreytinga. Þá hafa ákvarðanir um heimild til útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar þegar skilað sveitarfélögum auknum útsvarstekjum.
Mikilvægt er í þessu sambandi að hafa í huga að fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er misjöfn og þau eru misvel í stakk búin til að takast á við þær þrengingar sem nú ganga yfir. Þannig nýta t.d. um 1/4 sveitarfélaganna ekki heimild til hámarksútsvarsálagningar á þessu ári sem gefur vísbendingar um ákveðið svigrúm, sömuleiðis er víða svigrúm hjá sveitarfélögum til að nýta frekar heimildir til álagningar fasteignaskatts. Þessi mismunandi staða birtist einnig í ársreikningum sveitarfélaganna árið 2008 og fjárhagsáætlunum þessa árs (sjá þskj. 282 í 135. máli 137. löggjafarþings). Almennt má draga þá ályktun að vaxtarsveitarfélög, þ.e. sveitarfélög þar sem íbúafjöldi hin síðari ár hefur vaxið meira en íbúafjöldi á landsvísu, eigi við meiri vanda að glíma vegna efnahagshrunsins en önnur sveitarfélög. Þannig virðist gengisfall krónunnar og mikil verðbólga haft neikvæð áhrif á þau sveitarfélög, auk þess sem mikið álag var á mörg þeirra vegna mikilla skila lóða frá október 2008. Enn fremur hefur stóraukið atvinnuleysi komið illa við sveitarfélögin, ekki síst vaxtarsveitarfélögin sem og aukin félagsleg útgjöld, sem hafa aukist.
Það er því mat ráðuneytisins að fjárhagsstöðu sveitarfélaganna þurfi því að skoða í því samhengi að staða einstakra sveitarfélaga til að takast á við erfiðleikana eru misjöfn. Almennar aðgerðir geta átt rétt á sér eins og hækkun útsvars um síðustu áramót var dæmi um, hins vegar þarf að meta hvert tilvik fyrir sig. Öll sveitarfélög þurfa að aðlaga sig að breyttum aðstæðum og sveitarfélögin hafa tekist það verkefni á hendur með ábyrgum hætti.
Samkvæmt VII. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, fylgist eftirlitsnefnd sveitarfélaga með fjármálum sveitarfélaga og gerir viðvart ef í óefni stefnir. Nefndin hefur, með hliðsjón af ársreikningum 2008 og fjárhagsáætlunum þessa árs, gert níu sveitarfélögum viðvart og átt í samskiptum við þau um stöðu og horfur í fjármálum. Af þessum níu hefur eitt sveitarfélag óskað með formlegum hætti eftir aðstoð nefndarinnar með vísan til 75. gr. sveitarstjórnarlaga og fer nú fram ítarleg greining á fjárhagslegum forsendum þess til skemmri og lengri tíma. Auk þessara samskipta er í gildi einn samningur eftirlitsnefndar við sveitarfélag um eftirlitsaðgerðir, en hann er frá því í desember 2008.
Rétt er að greina frá því að starfandi er nefnd sem hefur það hlutverk með höndum að endurskoða lög um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt upplýsingum frá nefndinni hefur meðal annars verið farið yfir fjárhagsleg málefni sveitarfélaga á landsvísu og áhrif efnahagskreppunnar á starfsemi þeirra. Rætt hefur verið um að nefndin skili áfangaskýrslu í lok þessa árs, en að heildartillögur verði settar fram í apríl eða maí á næsta ári. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka, þrír fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk fulltrúa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Meðal verkefna nefndarinnar er að meta hvort þörf er á að breikka eða styrkja tekjustofna sveitarfélaga og væntir ráðuneytið þess að mat nefndarinnar verði traustur grundvöllur fyrir mati á því hvort og hvernig beri að breyta lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ráðuneytið leggur áherslu á að almenn samstaða sé um þessi mál er varða tekjustofna og fjármál sveitarfélaga.