Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Yfirlýsing þremenninga í Vg vegna fjárlaga 2010


  03/01/2011

  Yfirlýsing frá Atla Gíslasyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Lilju Mósesdóttur

  Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem birtist í fjárlagafrumvarpinu byggir á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í ríkisfjármálum fyrir árin 2009-2013 sem gerð var í nóvember 2008 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og síðan ítrekað staðfest, m.a. í svokölluðum stöðugleikasáttmála með aðkomu aðila vinnumarkaðar.
  Efnahagsstefnan byggir á því að verja fjármagnskerfið á kostnað velferðarþjóðfélagsins og birtist hún í skattahækkunum og stórfelldum niðurskurði. Þessi stefna AGS hefur sætt gagnrýni hagfræðinga víða um lönd, m.a. Nóbelsverðlaunahafa á borð við Joseph Stiglitz sem talað hafa fyrir hægfara aðlögun við að vinna sig út úr efnahagskreppu; leiftursókn gegn lífskjörum lækni engin mein. Þvert á móti skapist á því hætta að fjárlagagatið stækki og verði viðvarandi, með rýrnandi lífskjörum til langframa og niðurbroti á velferðarkerfinu.
  Nú þegar er komið í ljós að forsendur AGS standast ekki. Þannig eru hagvaxtaforsendurnar brostnar bæði fyrir þetta ár og komandi ár. Afar brýnt er að ríkisstjórnin hverfi frá kreppudýpkandi efnahagsstefnu AGS ef takast á að standa vörð um velferðarkerfið og lífskjörin landinu. Fallist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki á breyttar áherslur verða stjórnvöld að velja á milli hans og íslenska velferðarkerfisins.
  Samdrátturinn er mun meiri en reiknað var með. Stórfelldur niðurskurður við slíkar aðstæður mun auka samdráttinn sem síðan leiðir til þess að skera þarf enn meira niður á árinu 2012 en nú er gert ráð fyrir. Efnahagsstefna AGS hefur nú þegar valdið verulegum atvinnumissi og þjónustuskerðingu. Opinberum starfsmönnum hefur fækkað um sem nemur 1.156 stöðugildum og reikna má með að leggja þurfi um 1.800 störf niður á næsta ári. Í stað þess að endurskoða stöðuna í ljósi breyttra aðstæðna hefur ríkisstjórnin haldið dauðahaldi í efnahagsáætlun AGS.

  Forgangsröðun í þágu velferðar
  Forgangsröðun innan fjárlaganna er ekki nægilega mikil í þágu velferðar, menntunar og bættra lífskjara almennings. Á sama tíma og skorið er verulega niður í mörgum mikilvægum málaflokkum þá er lítið skorið niður í æðstu stjórnsýslu ríkisins. Það er einnig erfitt að réttlæta þá forgangsröðun að á niðurskurðartímum skuli 200 opinberir starfsmenn vinna að aðildarumsókn Íslands að ESB, með milljarða beinum og óbeinum kostnaði. Við undirrituð, og fleiri i þingflokki VG, höfum um nokkurt skeið varað við því að fylgja áfram í blindni efnahagsáætlun AGS. Fjölmargar tillögur okkar varðandi forgangsröðun, tekjuöflun, millifærslur og útgjöld í núverandi fjárlagafrumvarpi hafa ekki fengið málefnalega umræðu. Tillögur okkar hafa verið í samræmi við grunnstefnu VG og ályktanir flokksráðsfunda. Við höfum m.a. lagt fram tillögur um tekjuöflun fyrir ríkissjóð samhliða róttækri endurskoðun á niðurskurði innan velferðarkerfisins. Þótt nokkuð hafi áunnist í því að afstýra stórslysi í upphaflegum niðurskurðaráformum í heilbrigðisþjónustu landsmanna og innan almannatryggingakerfisins þá er fjárlagafrumvarpið enn boðberi kreppudýpkandi efnahagsáætlunar sem vegur of harkalega að einmitt þeim grunnstoðum sem núverandi ríkisstjórn lofaði að standa vörð um.

  Breytt vinnubrögð
  Í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þá teljum við að ríkisstjórnin og forystumenn hennar þurfa að taka vinnubrögð sín til gagngerrar endurskoðunar. Vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við gerð fjárlagafrumvarpsins, sem og ýmsum öðrum stórum og afdrifaríkum málum, hafa einkennst af forræðishyggju og foringjaræði frekar en lýðræðislegri ákvarðanatöku
  Í ljósi ofanritaðs þá teljum við mikilvægt að ríkisstjórnin taki málefnalega stefnu sína til gagngerrar endurskoðunar og samhliða því verði almenn vinnubrögð með öðrum hætti heldur en verið hefur.
  Með hliðsjón af framgreindu styðjum ekki fjárlagafrumvarpið og munum sitja hjá við afgreiðslu þess.