Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Bólusetningar ungbarna gegn pneumókokkum(valda m.a. eyrnabólgum)


  16/03/2010

  138. löggjafarþing 2009-2010.
  Þskj. 805 - 465. mál.
  Tillaga til þingsályktunar


  um bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum.


  Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


  Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir,


  Margrét Tryggvadóttir, Eygló Harðardóttir.


  Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum í ljósi þess að hún er hagkvæmust þeirra bólusetninga sem eftir er að taka upp.


  Greinargerð.

  Pneumókokkasýkingar geta valdið eyrnabólgu og fleiri alvarlegum sýkingum hjá börnum, og reyndar eldra fólki líka, svo sem lungnabólgu, blóðsýkingu og heilahimnubólgu. Eyrnabólgur og vandamál þeim tengd eru eitt algengasta heilsuvandamál barna á Íslandi. Talið er að allt að 95% barna fái eyrnabólgu að minnsta kosti einu sinni fyrir sex ára aldur. Um þriðjungur barna fá síendurteknar eyrnabólgur fram að sex ára aldri. Þetta er því ein algengasta sjúkdómsgreiningin í heilbrigðisgeiranum. Hér á landi er eyrnabólga algengasta orsök sýklalyfjaávísunar og skýrir yfir 50% allrar sýklalyfjanotkunar meðal barna. Hin mikla notkun sýklalyfja vegna eyrnabólgu á einna stærstan þátt í sýklalyfjaónæmi á Íslandi en það er mikið hér miðað við önnur ríki. Tíðni hljóðhimnurörísetninga er einnig mjög há á Íslandi þar sem um þriðja hvert barn fær rör. Engin þjóð notar rörin eins mikið og Íslendingar. Langvarandi eyrnabólga hefur ýmis afleidd vandamál, svo sem áhrif á málþroska vegna þess að börnin heyra verr á meðan þau eru á markaldri í máltöku.
  Sýklalyfjaónæmi hjá pneumókokkum hefur verið vaxandi vandamál hér á landi sem og í öðrum löndum á undanförnum árum, m.a. vegna mikillar notkunar sýklalyfja. Til að sporna við þessari óheillavænlegu þróun hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hvatt til minni sýklalyfjanotkunar. Ljóst er að það er til mikils að vinna ef hægt er að draga úr pneumókokkasýkingum hér á landi, sérlega hjá ungum börnum. Á undanförnum árum hefur nokkuð verið rætt um hvort taka eigi upp bólusetningar barna gegn pneumókokkum, bólusetningar gegn HPV-smiti hjá ungum stúlkum, en HPV-sýking getur valdið leghálskrabbameini síðar á ævinni, og fleiri bólusetningar.
  Í október 2008 skilaði ráðgjafahópur sem fékk það verkefni að skoða bólusetningar og skimanir ítarlegri skýrslu. Í skýrslunni var lagt mat á forvarnir sem lúta að bólusetningum og skimunum gegn smitsjúkdómum og krabbameinum. Var þar m.a. lagt mat á gildi og kostnaðarhagkvæmni bólusetninga. Mælt var með að:
   hafin yrði bólusetning með HPV-bóluefni meðal 12 ára stúlkna; árlegur kostnaður við bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini er áætlaður um 65 millj. kr. á verðlagi 2008,

   hafinn yrði undirbúningur að bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum; árlegur kostnaður við hana er áætlaður um 60 millj. kr. á verðlagi 2008,
   könnuð yrði kostnaðarhagkvæmni bólusetningar gegn hlaupabólu,
   heilbrigðisyfirvöld hefðu sér til ráðgjafar óháðan rannsóknarhóp með aðkomu vísindamanna í lýðheilsu- og heilbrigðisvísindum og siðfræðinga þegar lagt yrði mat á forvarnastarf á borð við bólusetningar og skimanir.
  Í nóvember 2008 var því beint til sóttvarnalæknis að tillögum ráðgjafahópsins yrði forgangsraðað þar sem ekki væri fjárhagslega mögulegt í ljósi efnahagsástandsins að fara að öllum tillögunum en þar var einnig fjallað um ristilkrabbameinsskimun og aðrar skimanir. Við þá forgangsröðun var m.a. haft samráð við Sigurð B. Þorsteinsson yfirlækni, formann sóttvarnaráðs, og Vilhjálm Rafnsson, prófessor í heilbrigðis- og faraldsfræði við læknadeild Háskóla Íslands. Niðurstaða forgangsröðunarinnar milli framangreindra kosta var að skynsamlegast og réttast væri að hefja fyrst bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum, sbr. eftirfarandi:

  Kostnaður og kostnaðarhagkvæmni.
   Líklegt er að kostnaður við þessar þrjár forvarnaraðgerðir sé sambærilegur.
   Kostnaðarhagkvæmni bólusetninga gegn pneumókokkasýkingum er þeirra hagstæðust ef miðað er við kostnað á hvert lífsgæðavegið lífár (vegna HPV-bólusetningar: 1,9 millj. kr. miðað við verðlag í ársbyrjun 2008 (byggist á 1,7 millj. kr. á verðlagi ársins 2006), vegna bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum: 0,5 millj. kr. á verðlagi ársins 2008 og vegna skimunar fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini: 2 millj. kr miðað við verðlag í ársbyrjun 2008 (byggt á 1,6 millj. kr. á verðlagi ársins 2001)).

  Lýðheilsuáhrif.
   Ávinningur af bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini skilar sér fyrst eftir 1020 ár.
   Ávinningur af bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum skilar árangri þegar eftir að bólusetning hefst, einkum meðal barna. Dregur að öllum líkindum úr notkun sýklalyfja og kemur í veg fyrir sýklalyfjaónæmi.
   Ávinningur af skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini skilar sér fyrst eftir u.þ.b. 10 ár í minnkaðri dánartíðni af völdum sjúkdómsins. Áður mun nýgengi sjúkdómsins aukast vegna skimunar.

  Neikvæð áhrif.
   Bólusetning gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini getur dregið úr komuvilja í leghálskrabbameinsleit. Sérstakt átak þarf til að styðja við leitina þar sem bóluefnið nær ekki til 3040% krabbameinsvaldandi HPV-stofna. Aukaverkanir eru óverulegar.
   Hugsanlegt er að pneumókokkasýkingar af völdum stofna sem ekki eru í bóluefninu færist í vöxt með tímanum eftir að bólusetning er hafin. Upplýsingar um þetta eru misvísandi. Aukaverkanir eru óverulegar.
   Skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini gerir miklar kröfur til þeirra sem gangast undir hana. Nokkuð verður um vinnutap og óþægindi. Gera má ráð fyrir að fylgikvillar ristilspeglunar geri vart við sig í fjöldaskimun þótt sjaldgæfir séu.  Framkvæmd.
   Framkvæmd bólusetningar gegna HPV-smiti og leghálskrabbameini er einföld og fellur vel að almennu barnabólusetningunni.
   Framkvæmd bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum er einföld og fellur vel að almennu ungbarnabólusetningunni.
   Framkvæmd skimana gegn ristil- og leghálskrabbameini er flókin. Þótt tillögur um útfærslu liggi fyrir er nákvæm útfærsla þeirra ekki að fullu ráðin.

  Útboð.
   Unnt er að bjóða út kaup á bóluefni gegn HPV-smiti þar sem tveir framleiðendur eru á markaði.
   Á næsta ári verður væntanlega hægt að bjóða út kaup á bóluefni gegn pneumókokkasýkingum en þá verða væntanlega tveir framleiðendur á markaði.
   Ekki hefur verið skoðaður sá kostur að bjóða út tiltekna verkþætti í skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini.

  Flutningsmenn tillögunnar telja því rétt að heilbrigðisráðherra hefji undirbúning að því að öll ungbörn verði bólusett gegn pneumókokkasýkingum í ljósi þess að sú framkvæmd er hagkvæmust þeirra bólusetninga sem eftir er að taka upp. Bólusetningar af þessu tagi bæta heilsu barna verulega og leiða til minni sýklalyfjanotkunar.