Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Ernst og Óskar sæmdir gullmerki Sundsambands Íslands


  27/02/2010

  Tveir höfðingjar voru sæmdir gullmerki Sundsambands Íslands á þingi sambandsins í dag. Það voru þeir Ernst Fridolf Backman, sundkennari, og Óskar Ágústsson, sundkennari. Báðir eru fæddir 1920. Hafa þeir lyft grettistaki fyrir sundíþróttina á Íslandi og væri sundhreyfingin snöggtum fátækari hefði þessara kappa ekki notið við.

  Ernst Backman fæddist í Reykjavík árið 1920.
  24 ára gamall fór Ernst að vinna í Sundhöll Reykjavíkur sem laugarvörður. Þangað komu erlendir þjálfarar tímabundið til að þjálfa íslenskt sundfólk, en íslenskir sundþjálfarar voru vandfundnir. Ernst fylgdist með á bakkanum, lærði og tileinkaði sér fræðin. Hann fór síðan að þjálfa sjálfur, lengi vel sundfólk Ármanns með góðum árangri og aðra líka. Hann fór meðal annars í keppnisferðalög til útlanda með þetta sundfólk, sem sumt var meðal helstu afreksmanna þjóðarinnar á þeim tíma.
  Hann var þjálfari Eyjólfs sundkappa í sjósundi og saman fóru þeir víða, meðal annars sjóleiðina upp á Akranes á 14 klukkustundum og reyndu tvisvar við Ermasundið.
  1955 tók Ernst íþróttakennarapróf frá Laugarvatni og fékkst síðan við sundkennslu um áratugaskeiða í Reykjavík og víða um land á sumrin. Mörgum kom hann á flot og margir minnast hans með hlýju og þakklæti.
  Ernst innleiddi og kenndi síðar sundleikfimi fyrir eldra fólk og lagði þar nýjan grunn að bættri heilsu landsmanna. Í framhaldi af því starfi tók hann þátt í stofnun Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra og er þar enn í stjórn, að verða níræður. Í því starfi hefur þessi síungi hugsjónamaður ferðast óþreytandi milli áhugahópa um allt land, kennt, boðað og stjórnað.
  Ernst lærði ungur á píanó og harmonikku og hefur víða verið ómældur gleðigjafi í samkvæmum og uppákomum. Þau hjón voru góðir dansarar og dönsuðu mikið.
  Ernst hefur alla tíð haft gaman af spilamennsku og keppir enn í bridge á vegum aldraðra.
  Á síðari árum hefur hann samið lög sér til skemmtunar og dægradvalar og syngur auk þess í samkór eldri kennara.
  Hluti þessara laga er nú kominn út á geisladisk sem gefinn er út af dóttursyni hans, Þorbirni Björnssyni. Ernst hefur næma tónlistargáfu og lögin hans eru sannir gleðigjafar, létt og skemmtileg.

  Óskar Ágústsson eða Óskar á Laugum, eins og hann er oft kallaður, fæddist að Brú í Stokkseyrarhreppi 1920. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum ásamt 10 systkinum í Sauðholti í Holtum í Rangárvallasýslu. Ungur fór hann til náms að Laugarvatni, fyrst í Héraðsskólann en síðan í Íþróttakennaraskólann. Hann lauk íþróttakennaraprófi frá Laugavatni vorið 1941.
  Að námi loknu hóf hann kennslu aðeins tuttugu og eins árs að aldri. Hann var um þriggja ára skeið farandkennari á vegum UMFÍ og ÍSÍ og hélt námskeið víða um landið. Á sumrin vann hann ýmis störf en starfaði þó aðallega við frjálsar íþróttir og sundkennslu. Hann dvaldi tvívegis erlendis í leyfum, m.a. veturlangt í Sönderborg og Ollerup í Danmörku og kynnti sér nýjungar í íþróttakennslu.
  Haustið 1944 tók Óskar við stöðu íþróttakennara að Laugum í Suður Þingeyjarsýslu og kenndi þar til ársins 1985 eða 41 ár samfleytt og hefur enginn kennari starfað lengur við Laugaskóla. Sundnámskeið skólabarna úr ýmsum hreppum Norður og
  Suður Þingeyjarsýslna, þar með talið frá Húsavík og Raufarhöfn, voru fyrst haldin á Laugum vorið 1943. Vorið 1945 tók Óskar Ágústsson, íþróttakennari, við þessum námskeiðum og sá um þau óslitið næstu 40 árin fyrir utan vorið 1946, en þá voru öll skólamannvirki undirlögð fyrir undirbúning HSÞ að landsmóti UMFÍ sem haldið var að Laugum þá um sumarið. Á fyrsta sundnámskeiðinu vorið 1945 lærðu 111 börn sund. Má áætla að á 40 ára sundkennsluferli Óskars hafi um 8.000-10.000 börn í Þingeyjarsýslum lært að synda á vornámskeiðum undir handleiðslu hans og aðstoðarkennara, en á þessum tíma komu börn einnig frá Hrísey í sundkennslu í Lauga til Óskars.

  Óskar gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna á starfsferlinum. Þekktust er formennska hans í Héraðssambandi Suður Þingeyinga í 21 ár. Óskar var framkvæmdastjóri 11. landsmóts UMFÍ sem haldið var að Laugum árið 1961. Að tillögu hans var það landsmót hið fyrsta í sögu landsmótanna sem heimamenn báru fulla fjárhagslega ábyrgð á. Óskar sat í varastjórn UMFÍ árin 1965-73. Óskar hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur gullmerki FRÍ 1964, heiðursorðu ÍSÍ 1970, gullmerki UMFÍ 1971 og gullmerki UMFÍ 1976. Hann er heiðursfélagi ÍSÍ síðan 1980. Þá var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1996 fyrir störf að íþrótta- og æskulýðsmálum.