Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Yfirlýsingar forseta Íslands vegna fjölmiðlalaga og icesavelaga


  07/01/2010

  YFIRLÝSING
  FORSETA ÍSLANDS 2. júní 2004
  1. Lýðræði, frelsi og mannréttindi eru grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar.
  2. Fjölþætt tækifæri til að tjá skoðanir, meta stefnur og strauma og fá traustar fréttir af innlendum og erlendum vettvangi eru mikilvægar forsendur þess að lýðræði okkar sé lifandi veruleiki.
  3. Fjölmiðlar eru í nútímasamfélagi sá tengiliður sem skapar almenningi aðstöðu til að njóta slíkra réttinda. Fjölbreyttir og öflugir fjölmiðlar eru ásamt þrískiptingu ríkisvaldsins skilyrði fyrir því að lýðræðislegt þjóðfélag geti þrifist og þroskast.
  4. Þrískipting ríkisvaldsins er tryggð í stjórnarskránni en fjölmiðlarnir eiga sér flóknari rætur. Þess vegna er nauðsynlegt að lög og reglur sem um þá gilda þjóni skýrt markmiðum lýðræðisins og víðtæk sátt ríki um slík lög líkt og víðtækt þjóðfélagslegt samkomulag þarf að vera um hvernig þrískiptingu ríkisvaldsins er háttað.
  5. Fjölmiðlarnir eru svo mikilvægir í lýðræðisskipan nútímans að þeir eru tíðum nefndir fjórða valdið. Margir telja að fjölmiðlarnir hafi meiri áhrif á hið raunverulega lýðræði sem þjóðir búa við en formlegar reglur um valdmörk helstu stofnana. Í stjórnarskrá okkar segir: "Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða."
  6. Sjálfstæðir og öflugir, fjölbreyttir og frjálsir fjölmiðlar eru hornsteinar lýðræðisins.
  7. Á tímum vaxandi alþjóðavæðingar eru gróskumiklir íslenskir fjölmiðlar einnig forsenda þess að við varðveitum áfram íslenska tungu, búum við sjálfstæða menningu og getum metið heimsmálin á eigin forsendum. Kraftmikil íslensk fjölmiðlun styrkir stöðu okkar í samkeppni við erlenda miðla og gegnir lykilhlutverki við að tryggja að íslensk menning og tunga haldi stöðu sinni og eflist á nýrri öld.
  YFIRLÝSING
  FORSETA ÍSLANDS 5. janúar 2010
  Hrun bankanna og erfiðleikar í kjölfar alþjóðlegrar efnahagskreppu
  hafa haft í för með sér djúpstæðan vanda. Þótt íslenska ríkið hafi tekið á
  sig ýmsar skuldir stærri en þær sem tengjast svonefndu Icesave máli, hafa
  umræður um það engu að síður orðið kjarni í glímunni um uppgjör og
  framtíð.
  Alþingi hefur nú að nýju samþykkt lög um þetta efni. Þau fela í sér
  breytingar á gildandi lögum nr. 96/2009 sem Alþingi samþykkti 28. ágúst
  og byggð voru á samningum við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi.
  Forseti staðfesti þau lög 2. september 2009 með tilvísun í sérstaka
  yfirlýsingu.
  Í framhaldi af samþykkt Alþingis á hinum nýju lögum 30. desember
  2009 hafa forseta borist áskoranir frá um fjórðungi kosningabærra manna
  í landinu um að vísa þessum breytingalögum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  Það er mun hærra hlutfall en tilgreint hefur verið sem viðmið í
  yfirlýsingum og tillögum stjórnmálaflokka.
  Skoðanakannanir benda til að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé
  sama sinnis. Þá sýna yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir sem forseta hafa
  borist frá einstökum þingmönnum að vilji meirihluta alþingismanna er að
  slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.
  Forseti hefur eftir samþykkt Alþingis átt ítarlegar viðræður við
  ráðherra í ríkisstjórn Íslands: forsætisráðherra, fjármálaráðherra,
  utanríkisráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra.
  Hornsteinn stjórnskipunar íslenska lýðveldisins er að þjóðin er æðsti
  dómari um gildi laga. Stjórnarskráin sem samþykkt var við lýðveldisstofnun
  1944 og yfir 90% atkvæðisbærra landsmanna studdu í
  þjóðaratkvæðagreiðslu felur í sér að það vald sem áður var hjá Alþingi og
  konungi er fært þjóðinni. Forseta lýðveldisins er svo ætlað að tryggja
  þjóðinni þann rétt. Á þessum vegamótum er einnig mikilvægt að árétta að endurreisn íslensks efnahagslífs er um þessar mundir knýjandi nauðsyn. Hún er
  ótvírætt háð því að sátt sé við aðrar þjóðir og góð samvinna við
  alþjóðasamtök og alla sem áhrif hafa á efnahag landsins og fjárhagsgetu.
  Lausn Icesave deilunnar er liður í slíkri farsælli þróun, skilyrði þess að
  þjóðin öðlist sem fyrst fyrri styrk og geti í samvinnu við aðra hafið öfluga
  endurreisn í þágu velferðar og hagsældar allra Íslendinga. Í yfirlýsingu
  forseta 2. september 2009 er kveðið á um að lausn deilunnar þurfi að
  "taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á
  komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð."
  Að undanförnu hefur orðið æ ljósara að þjóðin þarf að vera sannfærð
  um að hún sjálf ráði þeirri för. Þátttaka hennar allrar í endanlegri
  ákvörðun er því forsenda farsællar lausnar, sátta og endurreisnar.
  Í ljósi alls þessa sem að framan greinir hef ég ákveðið á grundvelli
  26. greinar stjórnarskrárinnar að vísa hinum nýju lögum til þjóðarinnar.
  Samkvæmt stjórnarskránni munu lögin engu að síður taka gildi og
  þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram "svo fljótt sem kostur er".
  Verði lögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, gilda þau að
  sjálfsögðu áfram. Verði úrslitin á annan veg, eru engu að síður áfram í
  gildi lög nr. 96/2009 sem Alþingi samþykkti 28. ágúst 2009 á grundvelli
  samkomulags við stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi, en þau fela í sér
  viðurkenningu Íslendinga á skuldbindingum sínum. Þau lög voru
  samþykkt á Alþingi með aðkomu fjögurra þingflokka eins og tilgreint var
  í yfirlýsingu forseta 2. september 2009.
  Nú fær þjóðin valdið og ábyrgðina í sínar hendur.
  Það er einlæg von mín að þessi niðurstaða leiði til varanlegra sátta
  og farsældar fyrir Íslendinga um leið og hún leggi grunn að góðri sambúð
  við allar þjóðir.
  Bessastöðum, 5. janúar 2010