Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Um rannsóknarnefndina


  29/12/2009

  Í dag fór fram umræða á Alþingi um skipan 9 manna nefndar þingmanna sem fara skal yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem hefur nú um nokkurt skeið skoðað ástæður bankahrunsins. Að lokinni umræðu var lagafrumvarp samþykkt. Þingmenn allra flokka samþykktu frumvarpið nema þingmenn Hreyfingarinnar sem sátu hjá.
  Nú seinni partinn gaf Hreyfingin út yfirlýsingu vegna þeirra breytingartillagna sem Þór Saari, þingmaður, flutti og voru felldar í dag. Svo segir í yfirlýsingunni:

  "...Því miður var öllum tillögum Hreyfingarinnar hafnað. Breytingartillögur Hreyfingarinnar fólu meðal annars í sér að í stað þess að níu þingmenn yrðu einir settir í þá stöðu að fjalla um hugsanleg brot félaga sinna og / eða foringja og þeim gert að skila tillögum til Alþingis um viðbrögð, svo sem að landsdómur verði kallaður saman, yrði að auki skipuð ráðgefandi nefnd fimm valinkunnra manna sem nytu trausts þorra almennings. Sú nefnd fengi það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslunnar sem snúa að þingmönnum, ráðherrum (núverandi og fyrrverandi), fjölskyldum þeirra og Alþingi sem stofnun. Rágjafanefndin myndi svo skila tillögum sínum til þingmannanefndarinnar. Þingmannanefndinni yrði þar með gert hægara um vik að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Um leið yrði ferlið í heild sinni trúverðugra þar sem þingið fengi nauðsynlegt utanaðkomandi aðald og leiðsögn. Í umræðum á Alþingi í dag hélt Siv Friðleifsdóttir því fram að hlutverk þeirrar nefndar væri það sama og rannsóknarnefndarinnar sjálfrar. Það er alrangt því rannsóknarnefndin sjálf skilar engum tillögum til Alþingis um viðbrögð við eigin skýrslu, hvort draga beri fyrrverandi ráðherra fyrir landsdóm eða hvort Alþingi sjálft hafi brugðist með þeim hætti að til aðgerða þurfi að grípa..."

  Rétt er af þessu tilefni að skoða lög um rannsóknarnefndina.

  Í lögum um rannsóknarnefndina, sem samþykkt voru skömmu eftir bankahrunið, segir í upphafi 15.greinar:

  "Rannsóknarnefndin skal láta Alþingi í té skriflega skýrslu með rökstuddum niðurstöðum rannsóknar sinnar ásamt ábendingum og tillögum um úrbætur. Skýrslan skal þegar í stað gerð opinber."

  Rannsóknarnefndin á sem sagt að skila tillögum. Þær tillögur byggjast að sjálfsögðu á skýrslu nefndarinnar sjálfrar, þ.e. því sem þar kemur fram og nefndin hefur fundið út og fjallað um.


  Einnig er tekið fram í 1. grein laganna 5. tölulið að rannsóknarnefndin á að "Koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu sem miða að því að gera íslenskt fjármálakerfi færara um að bregðast við þróun og breytingum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum."

  Þetta þýðir að rannsóknarnefndin á að gera tillögur ef gera þarf lagabreytingar. Væntanlega hefur þá Alþingi sett lög sem hafa ekki reynst vel og brugðist að því leytinu.


  Í upphafi sjálfrar markmiðsgreinar laganna um rannsóknarnefndina, 1. grein kemur fram

  "Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þá skal hún leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því."

  Rannsóknarnefndin á sem sagt að meta hverjir kunni að bera ábyrgð á bankahruninu, þar með talin forysta bankanna, eftirlitsaðilar, ráðherrar eða aðrir. Nefndin getur hinsvegar ekki dregið ráðherra fyrir Landsdóm, og hefur enginn haldið því fram. Það getur einungis Alþingi sjálft gert eins og skýrt má lesa í lögum um ráðherraábyrgð. En rannsóknarnefndin á samt að leggja mat á ábyrgð þessara aðila, sbr. 1.grein.

  Að öllu framansögðu er ljóst að tillaga Hreyfingarinnar um að Alþingi kjósi nefnd 5 valinkunnra manna utan þings sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings til að gera það sama og rannsóknarnefndin(Páll Hreinsson, Tryggvi Gunnarsson og Sigríður Benediktsdóttir) hefur verið að vinna er algerlega óþarft.