Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Svar um smádýr


  12/11/2009

  Hér er svar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um smádýr.

  1. Eru að nema hér land ný smádýr sem hafa áhrif á heilsu manna?
  Af nýjum pöddum sem numið hafa land á Íslandi síðustu áratugi hefur umræða einkum snúist að undanförnu um skógarmítil (Ixodes ricinus). Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands fannst skógarmítill fyrst hér á landi á farfugli 1967. Á síðari árum hefur hann fundist af og til, einkum hin síðari ár, og telur stofnunin að hann sé að öllum líkindum orðinn landlægur, enda hefur útbreiðslusvæði hans færst norður á bóginn með hlýnandi loftslagi. Þar sem skógarmítill berst með farfuglum er ekki ólíklegt að hann hafi borist til landsins af og til í aldir, en ekki fest rætur hér.
  Skógarmítill er blóðsuga sem leggst á spendýr og fugla. Hann heldur sig í gróðri, einkum á skógarbotni, og krækir sig fastan í blóðgjafann. Lífshættir hans á Íslandi eru lítt kannaðir, en fullorðnir mítlar eru 0,51,1 cm að lengd, en ungviðin miklu smærri. Skógarmítillinn getur verið varasamur því að sums staðar í heiminum getur hann borið alvarlega sýkla í menn, t.d. bakteríuna Borrelia burgdorferi og veirusjúkdóm. Það er háð því hvort skógarmítlarnir eru sýktir eða ekki, en það ræðst af því hvort sum spendýr sem hann nærist á, t.d. dádýr, beri sýklana. Í nágrannalöndum okkar finnast sýktir skógarmítlar helst á austurströnd Svíþjóðar og í öðrum ríkjum sem eiga strönd að Eystrasalti. Ekki er vitað til að þeir skógarmítlar sem fundist hafa hér á landi séu sýktir.
  Bakterían Borrelia burgdorferi veldur bakteríusýki (borrelíósu eða Lyme-sjúkdómi) í mönnum eftir bit skógarmítils, þegar hann nærist á blóði. Eftir bit sem leiðir til sýkingar myndast húðroði sem dreifir sér í hring út frá bitinu. Smám saman geta þróast einkenni frá miðtaugakerfi og liðum. Þá geta skógarmítlar borið veirur sem valda heilabólgu. Veirusjúkdóminn er helst að finna í skerjagarðinum í Stokkhólmi, Finnlandi, Eystrasaltslöndunum, Austurríki og Rússlandi.
  Þess skal og getið að lundamítill eða lundalús (Ceratixodes uriae) sem er ein tegund mítils af Ixodes-ætt, hefur verið rannsökuð hér á landi í Vestmannaeyjum og verið þekkt þar og víðar um land til áratuga, en ekki hefur tekist að sýna fram á að hann beri sjúkdómsvalda.

  2. Ef svo er, hvernig verður heilbrigðisþjónustan búin undir það og hvernig verður almenningur upplýstur?
  Læknum er kunnugt um Lyme-sjúkdóminn og er nauðsynlegt að taka tillit til hans í mismunagreiningu á sjúkdómum sem geta gefið hliðstæð einkenni. Skógarmítilsbit leynir sér oftast ekki og húðsýking sem kemur í kjölfar bits er mjög einkennandi. Lið- og miðtaugakerfiseinkenni geta verið ógreinileg, einkum ef bit hefur farið fram hjá sjúklingi. Til eru mótefnamælingar sem staðfesta sjúkdóminn.
  Bakteríusýkingin er læknanleg með sýklalyfjum.
  Til er bóluefni gegn veirusjúkdómnum. Bóluefnið er notað þar sem sjúkdómurinn er landlægur.

  Borrelíósan eða Lyme-sjúkdómur er skráningarskyldur sjúkdómur á Íslandi og hefur verið það undanfarin tíu ár. Skráningarskyldan þjónar þeim tilgangi að finna sjúkdóminn hér á landi og kortleggja hugsanlega útbreiðslu hans.
  Tekið skal fram að fylgst hefur verið með þessum sjúkdómi undanfarin tuttugu ár hér á landi, enda margir læknar menntaðir á þeim stöðum í heiminum þar sem sjúkdómurinn er algengur.
  Samkvæmt upplýsingum frá sýklafræðideild Landspítalans hafa á undanförnum tæpum fjórum árum verið send 255 blóðsýni og 38 sýni frá mænuvökva til rannsókna. Tvö sýnanna frá blóði bentu ákveðið til Lyme-sjúkdóms, en fjögur þeirra bentu til gamallar sýkingar. Eitt sýni frá mænuvökva var jákvætt fyrir Lyme-sjúkdómi. Ekkert þessara tilfella hefur verið skráð með uppruna hér á landi. Því má segja að grannt sé fylgst með sjúkdómum sem skógarmítlar gætu borið hér á landi.
  Þar sem skógarmítill er landlægur er fólk vant því að leita að honum á líkama sínum eftir dvöl í skógi eða graslendi. Ef hann er tekinn af húðinni innan við sólarhring eftir að hann nær að festa sig er hann talinn hættulaus þar sem bakterían sem veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum kemst ekki í blóðrás hýsilsins nema mítillinn sjúgi blóð mjög lengi. Hér á landi er fólk ekki vant þessari pöddu sem nú virðist orðin landlæg hér og því full ástæða til að fræða almenning um lífsferil skógarmítils og hvernig forðast má skaða af hans völdum. Ráðherra mun fela sóttvarnalækni það verkefni.