Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    prentvæn útgáfa

    Konur og St. Jósefsspítali


    14/01/2009

    Laugardaginn síðasta var haldinn afar fjölmennur borgarafundur í Íþróttahúsinu við Strandgötu undir heitinu "Stöndum vörð um St. Jósefsspítala". Fundurinn fór mjög vel fram, en þarna voru samankomnir hátt í tvöþúsund manns. Fundarmenn létu skoðanir sínar skýrt í ljós með málefnalegum og yfirveguðum hætti. Í upphafi fundar talaði heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson. Reyndi hann að færa rök fyrir þeirri ákvörðun að loka St. Jósefsspítala og opna þar þess í stað öldrunarþjónustu. Starfsemi spítalans yrði flutt bæði á sjúkrahúsið í Reykjanesbæ og Landsspítalann-háskólasjúkrahús. Lagði ég mig fram við að hlusta á skýringar ráðherra. Skýringar hans og röksemdafærsla var ómarkviss og ótrúverðug. Ráðherra hlýtur að koma með haldbærari rök fyrir ákvörðun sinni á næstunni því að öðrum kosti mun ekki nást samstaða um lokun spítalans. Á fundinum komu fram athyglisverðar upplýsingar sem snúa sérstaklega að stórum hópi kvenna. Í mörg ár hefur verið byggt upp öflugt teymi á St. Jósefsspítala sem sérhæfir sig í meðferð á grindarbotnsvandamálum. Þetta teymi er það eina sinna tegundar í landinu og hefur hjálpað afar mörgum konum sem eiga við viðkvæm grindarbotnsvandamál að stríða. Var fullyrt á fundinum að teymi þetta myndi leysast upp væri því splundrað með lokun spítalans. Eðlilegt er að ráðherra skýri framtíðarsýn sína hvað þessa þjónustu varðar. Konur hafa lyft grettistaki í heilbrigðismálum þjóðarinnar eins og allir vita. Hópur kvenna hóf á sínum tíma söfnun fyrir byggingu Landsspítalans. Konur hafa verið í fararbroddi í uppbyggingu Barnaspítala Hringsins og hreyfingar nunna hafa stuðlað að uppbyggingu sjúkrastofnana s.s. Landakotsspítala, sjúkrahússins í Stykkishólmi og St. Jósefsspítala svo eitthvað sé nefnt. Árið 1991 stóð til að leggja St. Jósefsspítala niður. Þá skipulagði Bandalag kvenna í Hafnarfirði(BKH) undirskriftasöfnun þar sem öll heimili í Hafnarfirði voru heimsótt. Í þeirri söfnun kom í ljós að mjög mikil andstaða var við lokunaráformin. Þáverandi ráðherra tók tillit til stöðunnar og starfsemi St. Jósefsspítala fékk að halda áfram. Á borgarafundinum s.l. laugardag rifjaði Kristín Gunnbjörnsdóttir, formaður Bandalags kvenna í Hafnarfirði, þessa sögu upp í skeleggri ræðu sinni. Ljóst er að samtök kvenna í Hafnarfirði og öll stjórnmálafélögin í bænum hafa ályktað gegn ákvörðun heilbrigðisráðherra um lokun St. Jósefsspítala. Þverpólitísk samstaða er gegn ákvörðun ráðherrans. Af framsögðu er ljóst að heilbrigðisráðherra verður að bjóða upp á samráð um næstu skref í þessu erfiða máli.