Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Grænland, heilbrigðisáætlun og staða barna


  03/07/2008

  Dagana 23.-27. júní var ég í Nuuk í Grænlandi. Þar stýrði ég fundi velferðarnefndar Norðurlandsráðs, en nefndin vinnur nú að tillögum um hvernig bregðast megi við nýjum rannsóknum um afleiðingar kynferðislegs- og líkamlegs ofbeldis og vanrækslu, á líkamlega og andlega heilsu barna á Norðurlöndunum á fullorðinsárum þeirra. Kynnti velferðarnefndin sér m.a. stöðu barna í grænlensku samfélagi. Afar margt jákvætt á sér stað í velferðarmálum barna í Grænlandi. Vandinn þar er samt nokkuð umfangsmikill eins og ég kem að síðar. Málefni sem hafa legið í þagnargildi eru nú rædd á opinskárri hátt en áður í grænlensku samfélagi og er það vel. Hins vegar er ljóst að á Grænlandi er hrópandi þörf fyrir fagfólk til að sinna börnum í félagslegum vanda og styrkja þarf verulega þau úrræði sem nú þegar eru að spretta upp til að taka á þessu verkefni.

  Á Grænlandi búa rúmlega 56.000 manns, þar af rúm 13.000 í Nuuk(tölur frá 2001). Sagt er að um 15.000 manns búi nú í Nuuk. Reyndar er álitið að talsvert fleiri búi í Nuuk, en þar er búið mjög þröngt því húsnæði vantar tilfinnanlega. Allar tölur sem vísað er í hér að neðan í köflunum um áfengi, hass, ofbeldi, sjálfsmorð, þyngd, kynlíf og reykingar eru teknar úr nýrri heilbrigðisáætlun stjórnvalda árin 2007-2012 (Folkesundhedsprogram, Landsstyrets strategier og malsætninger for folkesundheden 2007-2012) og eru því opinberar tölur grænlenskra stjórnvalda. Tölur í köflunum heilbrigðismál og sjálfstæði eru tölur sem ég punktaði niður í fyrirlestrum sem haldnir voru fyrir velferðarnefndina og eru því á mína ábyrgð. Neðsti kaflinn í þessari yfirferð er fréttatilkynningin sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs sendi frá sér eftir fund sinn á Grænlandi.

  Áfengi, hass:
  Árið 2005 neyttu Grænlendingar eldri en 15 ára 12,5 lítra alkóhóls/ári sem er sama neysla og í Danmörku. Danir og Grænlendingar eru talsvert mikið yfir neyslu annarra norrænna ríkja.
  Hass er útbreitt á Grænlandi aðallega meðal karla og ungmenna. Önnur eiturlyf fyrirfinnast varla.
  Árið 2004 hafði þriðjungur barna yngri en 14 ára orðið drukkinn. Grænlendingar setja markið á að koma þessari tölu niður í 10% árið 2012.
  Árið 2003 hafði fjórðungur barna 14-17 ára prófað hass. Þessari tölu vilja þeir einnig ná niður í undir 10% árið 2012.
  Árið 1998 hafði fimmtungur unglinga sniffað . Þessari tölu vilja þeir ná niður í u.þ.b. núll árið 2012.

  Ofbeldi(vold) :
  48% karla og 47% kvenna á Grænlandi hafa orðið fyrir ofbeldi eða alvarlegri hótun um ofbeldi.
  Árið 2005 voru 775 slík tilfelli tilkynnt lögreglu.
  30% karla og 27% kvenna höfðu orðið fyrir grófu ofbeldi s.s. spörkum, vera sleginn með hnefa eða hlut, vera kastað á húsgagn, í vegg eða niður tröppur, vera tekinn kverkataki eða lent í hnífa- eða skotvopnaárás.
  Í Grænlandi eru 6-7 sinnum fleiri ofbeldistilkynningar heldur en í Danmörku og Færeyjum og 14-18 sinnum fleiri tilkynningar um blygðunarbrot (sædelighedsforbrydelser) en í sömu löndum.
  Árið 2004 höfðu 28% stúlkna orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og 9% drengja.

  Sjálfsvíg:
  Sjálfsvíg eru ein meginástæða þess að meðalaldur er lægri á Grænlandi en á hinum Norðurlöndunum meðal karla. Hæst tíðni sjálfsvíga í heiminum er meðal Grænlendinga og Inúíta í Kanada. Á síðustu 50 árum hefur tíðni sjálfsvíga meðal ungra karlmanna í Grænlandi hækkað verulega (dramatisk stigning), en þó verið stöðug frá 1990. Um 50 manns falla fyrir eigin hendi árlega og karlar 3-4 sinnum oftar en konur, sérlega ungir karlar. 50% Grænlendinga hefur átt fjölskyldumeðlim eða vin sem fallið hefur fyrir eigin hendi.
  27% Grænlendinga á aldrinum 18-29 ára hefur alvarlegar sjálfsvígshugleiðingar, þó sérstaklega ef viðkomandi býr við áfengisnotkun á heimili eða kynferðislega misnotkun. Ef þetta tvennt fer saman hækkar talan í 80%.

  Þyngd:
  Grænlensk börn eru þyngst miðað við sambærilega aldurshópa í Evrópu. Árið 2002 voru 20% drengja of þungir og 19% stúlkna. Á landsbyggðinni eru sömu tölur 31% hjá drengjum og 33% hjá stúlkum.

  Kynlíf:
  Ótímabær þungun (uönsked graviditet) er vandamál í Grænlandi. Næstum 50% þungana lýkur með fóstureyðingu. Dreifing er nokkuð jöfn meðal aldurshópa og er í öllum þjóðfélagshópum.
  Kynsjúkdómurinn klamydía er jafnframt útbreiddur, tíðni hans hafði lækkað fyrir stuttu, en fer vaxandi aftur nú miðað við nýjustu tölur.
  63% 15 ára unglinga hefur sofið hjá.

  Reykingar:
  Reykingar eru afar útbreiddar en fara minnkandi. Í dag reykja 64% Grænlendinga. Sama tala í Danmörku er 25%. Grænlendingar stefna á að ná þessari tölu niður í 40% árið 2012. 12% 11 ára drengja hafa reykt og 24% 11 ára stúlkna. Sömu tölur í Danmörku eru 15% drengja og 9% stúlkna.
  50% unglinga 15-17 ára reykja daglega í Grænlandi en 14-16% í Danmörku.


  Heilbrigðismál:
  Tíðniberkla fer vaxandi í Grænlandi. Að sögn fjölskyldu- og heilbrigðisráðuneytisins eru 10-12% skólabarna með berklaveiruna í sér. Þau eru ekki öll smitberar, en virkir smitberar eru í samfélaginu og endurspeglast það í þessari háu tölu.
  Í Nuuk er starfandi 41 læknir, aðallega á sjúkrahúsinu. Þar af eru 4-5 grænlenskir læknar á sjúkrahúsinu. Erfitt er að manna sjúkrahúsið svo einungis eru framkvæmdar bráðaaðgerðir í Nuuk. Lengsti biðlistinn er vegna mjaðmaskipta, um 8 ár. Starfsmaður sem heimsótti sjö byggðir nýlega í Grænlandi lýsti því þannig að ungbarnadauði færi minnkandi(er þó 3 sinnum meiri en í Danmörku) og fóstureyðingum fækkaði. Fóstureyðingar eru enn algengar en fóstureyðingar voru færri en fæðingar í einungis í einni af þeim sjö byggðum sem heimsóttar voru. Í hinum sex eru ennþá fleiri fóstureyðingar en fæðingar.

  Grænlendingar eru að byggja upp umfangsmikið net fjarlækninga (telemedicin) þar sem ófaglærður starfsmaður sem fær þjálfun á parti úr degi, verður fær um að skoða sjúkling með fjartæknibúnaði og sendir hann svo myndir til sérfræðinga í Nuuk, Danmörku eða annað til aflestrar.

  Erfitt er að manna læknastöður á landsbyggðinni þrátt fyrir góð launakjör. Svo virðist sem læknar vilji ekki eða þori ekki að bera ábyrgð á íbúum byggðanna fjarri búnaði og aðstoðarfólki. Sérhæfing lækna veldur því að þeir sækjast ekki eftir því að starfa í byggðunum þar sem þeir gætu þurft að skera upp eða gera annað sem þeir eru ekki sérmenntaðir til. Líklegt má telja að þar spili einnig inn í líkurnar á að staðna í eigin fræðigrein og getu ef þeir eru fjarri möguleikum á sívirkri endurmenntun. Nú eru um 25-30 Grænlendingar í læknanámi í Danmörku sem menn binda miklar vonir um að skili sér heim að námi loknu.

  Dýrt er að kalla til þyrlu til að sækja sjúklinga ef með þarf. Slíkt sjúkraflug kostar um 250.000-500.000 DKK eftir því hvar sjúklingurinn er staðsettur. Um 1.400 manns vinna við heilbrigðisþjónustun á Grænlandi þar af um 450 á sjúkrahúsinu í Nuuk. Danir greiða um 1 milljarð danskar króna á ári fyrir heilbrigðiskerfið í Grænlandi, en alls er svokallað bloktilskud Dana (fjárframlag Dana til grænlenska samfélagsins) rúmlega 3 milljarðar danskra króna á ári, þ.a. heilbrigðiskerfið er 1/3 af því.


  Sjálfstæði:
  Nú í haust munu Grænlendingar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um aukið sjálfstæði. Verði niðurstaðan jákvæð, sem flest bendir til, þá eykst sjálfstæði Grænlands og er miðað við að slíkt taki gildi á þjóðhátíðardegi þeirra, 21. júní á næsta ári.
  Samkvæmt nýlegu samkomulagi milli Dana og Grænlendinga mun fjárframlag Dana inn í grænlenskt samfélag og er rúmlega 3 milljarðra danskra króna á ári, áfram verða greitt til Grænlands, þrátt fyrir aukið sjálfstæði. Verði aukið innstreymi fjármagns til Grænlands í framtíðinni vegna nýrrar námu eða álvers(Alcoa er í viðræðum við Grænlendinga) hefur það fjármagn ekki áhrif til lækkunar á þessu framlagi. Verði hinsvegar aukið innstreymi fjármagns til Grænlands vegna olíuvinnslu mun sú upphæða dragast frá framlaginu og Danir lækka greiðsluna sem því nemur. Olíupeningarnir dragast þannig frá framlaginu en aðrar tekjur ekki.


  Fréttatilkynning velferðarnefndar Norðurlandaráðs þann 26, júní 2008.

  Stöðvum barnamisnotkun á Norðurlöndum

  Velferðarnefnd Norðurlandaráðs ræddi á fundi sínum á Grænlandi þann 23. júní, átaksverkefni til að stöðva misnotkun á börnum og ungmennum á Norðurlöndum. Velferðarnefndin ræddi sérstaklega um umönnunarskort, kynferðislega misnotkun, andlegt og líkamlegt ofbeldi, sjálfsmorð og fíkniefnamisnotkun.

  Börn sem beitt hafa verið ofbeldi, eiga á hættu að verða veikir einstaklingar seinna meir. Niðurstöður nýrra rannsókna gefa sterklega til kynna að misnotkun hafi í för með sér eyðileggjandi lífshætti og hegðun á uppvaxtarárunum sem eykur hættuna á sjúkdómum eins og til dæmis hjarta- og æðasjúkdómum, lungna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, krabbameini og geðsjúkdómum.

  Þróunin á Norðurlöndum sýnir aukna þörf fyrir að aðstoða börn vegna andlegra og líkamlegra kvilla, vegna misnotkunar, þá er einnig aukin þörf fyrir sérkennslu.

  Nefndin vill að ríkisstjórnir Norðurlandanna nýti sér allar þær aðferðir sem hafa hjálpað börnum í hverju landi fyrir sig. Á þann hátt verður til norrænn virðisauki með áherslum á hugmyndir sem nú þegar fyrirfinnast á Norðurlöndum og sjálfstjórnarsvæðunum.

  Nefndin vill að ríkisstjórnirnar með aðstoð Norrænu ráðherranefndarinnar eigi frumkvæði að því að áhersla verði lögð á jafnt forvarnir og raunverulega hjálp fyrir börn og ungmenni í áhættuhópum, til þess að auka lífsgæði þeirra og stuðla að bættu samfélagi. Velferðarnefndin hvetur til þess að:

  Sett verði á stofn Barnahús á öllum Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum eftir fyrirmynd frá Íslandi, Noregi og Svíþjóð.

  Að útbúin verði Barnavog með opinberri tölfræði til að auka sýnileika og mynda grunn til ákvarðanatöku um málefni sem tengjast börnum og ungmennum.

  Ef Norðurlöndin vilja vera til fyrirmyndar á heimsvísu og stuðla að samkeppnishæfni í framtíðinni verðum við að ganga fram af festu til að koma í veg fyrir aðstöðumun á Norðurlöndum. Nýlega veitti Norræna ráðherranefndin Svíanum prófessor Danuta Wasserman Norrænu lýðheilsuverðlaunin fyrir fyrirbyggjandi starf hennar gegn sjálfsmorðum.

  Verðlaunin eru viðurkenning á lofsverðu starfi sem nefndin vonar að hafi í för með sér auknar fjárveitingar til rannsókna á þessu sviði. Fjárveitingarnar eiga að vera hluti af þeim norrænu fjárveitingum sem ríkisstjórnirnar hafa ákveðið að renni til öndvegisrannsókna og eru hluti af aðgerðum Norðurlandanna til að mæta áskorunum hnattvæðingarinnar.