Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    prentvæn útgáfa

    Fyrsti áfangi Vatnajökulsþjóðgarðs


    08/06/2008

    Þetta skrifaði ég á sínum tíma í dagbók mína:

    Sunnudagur 12. september 2004

    Kl.9:15 héldum við Skúli Oddsson, bílstjóri, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri og Sverrir Sveinn Sigurðarson, viðskiptafræðingur og áhugamaður um Vatnajökulsþjóðgarð, af stað í Skaftafell.

    Ferðinni var heitið til að undirrita ásamt forsvarsmönnum Skaftárhrepps og Sveitarfélagsins Hornafjarðar, yfirlýsingu um 1.áfanga Vatnajökulsþjóðgarðs, sem verður stækkun Skaftafellsþjóðgarðs.

    Áfangi þessi markar tímamót í þjóðgarðasögunni á alþjóðavísu, því hér er stærsti þjóðgarður í Evrópu að fæðast, en hann nær yfir rúmlega 4.800 ferkílómetra, eða til um 60% jökulhettu Vatnajökuls, Skaftafells og náttúruvættisins Lakagíga.

    Ljóst er að þessi þjóðgarður verður að öllum líkindum "Hornsteinn í ímynd Íslands" í framtíðinni eins og Sverrir Sveinn Sigurðarson, viðskiptafræðingur, benti svo réttilega á árið 1995 í nokkrum Morgunblaðsgreinum svo eftir var tekið.

    Var hann verðlaunaður fyrir þjóðgarðahugmyndir sínar af Skipulagi Ríkisins og Umhverfisráðuneytinu árið 1996.

    Kl.14 hófst athöfnin í Skaftafelli.

    Þótti mér við hæfi að klæðast þjóðgarðapeysunni minni svokallaðri, en í henni opnaði ég Þjóðgarðinn Snæfellsjökul í júli árið 2001, en þá hafði ekki verið opnaður þjóðgarður á Íslandi í 28 ár.

    Eftir að karlakórinn Jökull hafði sungið kröftugt lag flutti ég erindi um aðdraganda opnunar 1.áfanga Vatnajökulsþjóðgarðs, stækkunar Skaftafellsþjóðgarðs .

    Lýsti ég m.a. þeim nátturuverðmætum sem felast í verndun Vatnajökuls og aðliggjandi svæða og skýrði frá þingsályktunartillögu Hjörleifs Guttormssonar um þjóðgarða frá árinu 1999 og starfi þeirra nefnda sem unnið hafa að málinu, í minni tíð í ráðuneytinu, undir forystu Hermanns Hanssonar, Einars Sveinbjörnssonar og Árna Bragasonar í góðu samstarfi við fulltrúa sveitarfélaga, ferðamálasamtaka, umhverfisverndarsamtaka og fleiri hagsmunaaðila.

    Einnig var kynnt starfsmannahaldið sem fylgir þessum áfanga, en tveir heilsársstarfsmenn verða ráðnir bráðlega, annar á starfsstöð þjóðgarðsins á Kirkjubæjarklaustri, en hinn á starfsstöð á Höfn.

    Fyrir eru tveir starfsmenn í Skaftafelli og er annar þeirra Ragnar Frank, þjóðgarðsvörður.

    Í lok erindisins lýsti ég framtíðarsýn minni, en hún er sú að Þjóðgarðurinn Vatnajökull (eða Vatnajökulsþjóðgarður) nái stranda á milli, allt frá Öxarfirði í norðri til sjávar í suðri þar sem jökulhettan sjálf væri hjartað eða kjarninn rétt sunnan við miðjuna.

    Slíkur þjóðgarður hefði þvílíka sérstöðu, sökum mikilla náttúruverðmæta, að hann færi auðveldlega inn á Heimsminjaskrá UNESCO og yrði einn mikilvægasti og stórfenglegasti þjóðgarður veraldar.

    Vel mætti hugsa sér að t.d. nefndin sem Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri, leiddi og skilaði tillögum til mín í vor um þjóðgarð norðan Vatnajökuls gæti unnið að þessari framtíðarsýn á næstu árum.

    Í nefndinni voru auk Magnúsar þau þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Magnús Stefánsson, Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon.

    Á miðvikudaginn næsta tekur Sigríður Anna Þórðardóttir við stöðu umhverfisráðherra þ.a. það kemur í hennar hlut að leiða þjóðgarðastarfið áfram eins og henni þykir best hæfa.

    Eftir ávörp Alberts Eymundssonar, bæjarstjóra sveitarfélagsins Hornafjarðar og Árna Jóns Elíassonar, oddvita Skaftárhrepps, undirrituðum við þrjú yfirlýsingu um stækkun þjóðgarðsins í Skaftafelli.

    Því næst var táknrænn gjörningur sem fólst í því að við þrjú, ásamt Ragnari Frank þjóðgarðsverði, bundum saman þrjá listræna bikara úr hvítri íslenskri ull með fánabandi til marks um þá samvinnu sem mun eiga sér stað milli aðila í framtíðinni vegna þessa stórfenglega þjóðgarðs.

    Eftir ávörp Davíðs Egilssonar, forstjóra Umhverfisstofnunar og Ragnars Franks afhentu fulltrúar ferðamálasamtaka Austur-Skaftafellssýslu og Jöklasafnsins á Höfn blómvendi með góðum óskum til handa starfsemi þjóðgarðsins.

    Að athöfn lokinni var gengið áleiðis að Skaftafellsjökli en síðan haldið í Freysnes þar sem gestum var boðið upp á kaffiveitingar.

    Á leiðinni í Freysnes sáum við hvar Ómar Ragnarsson, fréttamaður, klifraði um borð í flugvél sína til að haska sér í bæinn með glóðvolga þjóðgarðafrétt fyrir RÚV-sjónvarp.

    Kl.16-20 ókum við í bæinn. Á leiðinni tók Morgunblaðið upp símaviðtal um þennan góða þjóðgarðaáfanga.