Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Lýðræðisleg krafa um borgarafund á Seltjarnarnesi


  08/04/2008

  Fyrir nokkrum vikum síðan settu nokkrir íbúar á Seltjarnarnesi fram kröfu um að bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi taki aðalskipulag bæjarins til endurskoðunar. Þetta kom fram í bréfi sem borið var til allra íbúa sveitarfélagsins. Tilefni kröfunnar er að til stendur að reisa íbúðarbyggð á iðnaðarsvæðinu við Bygggarða, samkvæmt Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006-2024. Svæðið sem afmarkað er fyrir hina nýju íbúðarbyggð er um 3 hektarar að stærð. Á því svæði var gert ráð fyrir umfangsmikilli byggð sem er algerlega í andstöðu við lýsingar í gildandi aðalskipulagi.h

  Sigurveig Alexandersdóttir er ein þeirra sem stóð að kröfunni sagði fyrir nokkrum vikum síðan í fréttaviðtali að hún vildi að hámarksnýtingarhlutfall á svæðinu yrði lækkað þannig að hlutfallið verði í einhverju samræmi við nærliggjandi íbúðasvæði. Sagði hún m.a."Ef af þessu verður eins og þetta lítur út núna verður það algert skipulagsslys," segir Sigurveig. "Þarna er mikið útivistarsvæði og mikið fuglalíf. Þetta myndi allt eyðileggjast," segir hún. Hún segist þó ekki vera mótfallin byggð, en það verði að vera lágreist byggð og ekki gert ráð fyrir svo miklum fjölda íbúða. Sagði hún einnig að íbúarnir hefðu fengið góð viðbrögð við bréfinu og að það væri mikill vilji fyrir því að vernda þá náttúruperlu sem þarna sé.

  Frá því að framangreindir íbúar sendu út bréf sitt hafa verið stofnuð Íbúasamtök um lágreista byggð í Bygggörðum austan Gróttu. Í íbúasamtökunum er fólk sem býr vítt og breitt um nesið og á þá sameiginlegu sýn að það telur að ekki eigi að reisa hús hærri en 2 hæðir á umtöluðu svæði. Þannig verði nýja byggðin í jaðri núverandi byggðar í anda þess sem aðalskipulagið gerir ráð fyrir.
  Strax eftir páska var íbúum einungis tveggja gatna kynnt tillaga um að 6 þriggja hæða blokkir ættu að rísa á Bygggarðasvæðinu ásamt meiri byggð fyrir um 370 íbúa alls.

  Bæjaryfirvöld hafa ekki svarað skriflegum beiðnum íbúasamtakanna um virkt samráð við íbúa Seltjarnarness um málið og íbúakosningu þar sem Seltirningar gætu kosið milli tillagna.
  Íbúasamtökin sendu frá sér áskorun til bæjaryfirvalda á Seltjarnarnesi í lok síðasta mánaðar um að haldinn yrði borgarafundur um skipulagsmál á Bygggarðasvæðinu þ.a. allir íbúar Seltjarnarness ættu kost á því að fá kynningu á stöðu mála og tækifæri til að tjá sig um framhaldið.

  Ekki hefur enn borist svar við þeirri beiðni.
  Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og aðrir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem fara með meirihlutavald í bæjarfélaginu ættu að sjá sóma sinn í að bregðast við lýðræðislegum óskum íbúasamtakanna og halda borgarafund í samvinnu við samtökin hið fyrsta.