Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    prentvæn útgáfa

    Er svo löng einangrun forsvaranleg óháð sekt eða sakleysi?


    07/04/2008

    Síðustu daga hafa verið fréttir af 25 ára gömlum íslenskum manni sem tengist Pólstjörnumálinu og var handtekinn í Færeyjum fyrir um hálfu ári þann 18. september með eiturlyf í fórum sínum. Hann hefur verið í einangrun nær sleitulaust allar götur síðan, lengur en nokkur fangi þar í landi, eða í um 170 daga. Í fréttum hefur komið fram að samkvæmt mati Þórarins V. Hjaltasonar, sálfræðings Fangelsismálastofnunar, getur svo löng einangrun haft mjög slæmar afleiðingar. Þórarinn hefur sagt að lengsta einangrunarvist sem hann muni eftir hér á landi hin síðari ár væru einn og hálfur mánuður. Þessi langa einangrunarvist unga Íslendingsins í Færeyjum heyrir til undantekninga og má rifja upp að á sínum tíma sat saklaus maður í einangrun í yfir þrjá mánuði við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, eða í 104 daga. Sá maður lýsti því síðar að í lok vistarinnar hefði hann verið farinn að efast um sakleysi sitt en ofskynjanir eru meðal algengra afleiðinga langrar einangrunar. Samkvæmt fréttum er ungi maðurinn nemi við háskólann á Bifröst og hefur ekki áður komið við sögu lögreglunnar. Tíminn sem hann hefur verið í einangrun í Færeyjum er lengri en sá tími sem aðrir sem tengdust Pólstjörnumálinu sátu í einangrun hér á landi allir til samans. Þótt Færeyingar hafi sjálfstjórn fara Danir með dóms- og lögreglumál í Færeyjum og virðast taka afar hart á þessu máli. Maður hlýtur að furða sig á þeirri meðferð sem ungi Íslendingurinn hefur sætt í Færeyjum óháð sekt hans eða sakleysi. Af hverju þurfti hann að sæta einangrun í þetta langan tíma? Var það nauðsynlegt? Er þessi meðferð forsvaranleg? Hafa íslensk stjórnvöld brugðist við í þessu máli? Hefur utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, spurst fyrir hjá Dönum og vinum okkar í Færeyjum hverju þetta sætir? Hafa íslensk yfirvöld andæft því að hann hafi sætt svona langri einangrun óháð sekt hans eða sakleysi? Telja íslensk yfirvöld enga ástæðu til að skoða þetta mál?