Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  prentvæn útgáfa

  Ríkisstjórnin treður marvaðann í loftslagsmálum


  27/02/2008

  Í gær kom fram í fréttum rúv-sjónvarps að ríkisstjórnin hefði lagt fram sjónarmið sín um hvað Ísland myndi leggja áherslu á í samningslotunni sem nú er að hefjast um næsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar. Samningslotan hefst nú í apríl og á samkvæmt áætlun að ljúka með samningi á næsta ári í Kaupmannahöfn.

  Ríkisstjórnin er greinilega enn svo ósammála um hvernig skuli taka á stóriðju í samningsferlinu að hún treystir sér ekki til að taka á því máli í skjalinu sem nú hefur verið lagt fram. Ríkisstjórnin telur því betra að troða marvaðann í loftslagsmálunum í stað þess að taka skýra afstöðu og berjast fyrir framgangi hennar í samningsferlinu. Í fréttinni sem ber fyrirsögnina "Enn óvíst um losunarkvótaumsókn" segir:

  Íslenska ríkisstjórnin lagði í morgun fram sjónarmið sín um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Balí-vegvísinn. Í skjalinu kemur ekki fram hvort Íslendingar hyggist aftur sækja um undanþágu frá losunarákvæðum eins og í Kyoto-bókuninni. Einnig segir þar "Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra segir að undanþágur og sératkvæði komi ekki til tals fyrr en í lok næsta árs."

  Miðað við yfirlýsingar Þórunnar er ljóst að ríkisstjórnin er ófær um að ná fram sameiginlegri stefnu hvað stóriðjuna varðar og ætlar að láta reka á reiðanum í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar þar til í lok næsta árs, þegar samningurinn á að vera í höfn samkvæmt áætlun. Þessi staða boðar ekki gott.

  Fram hefur komið opinberlega að Samtök atvinnulífsins(SA) telja að við eigum að viðhalda íslenska ákvæðinu svokallaða eða ígildi þess á næsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Er ég algerlega sammála SA í þessu. Ekki þarf textinn í slíku ákvæði að vera nákvæmlega hinn sami og nú er né sama aðferðarfræði nýtt. Hinsvegar þarf sami andi og ákvæðið byggist á að skila sér, þ.e. að við getum áfram nýtt endurnýjanlegar orkulindir okkar m.a. til stóriðju, hugnist okkur það, í stað þess að slík starfsemi rísi frekar þar sem notast er við mengandi kol eða olíu til orkuöflunar.

  Hér er skrifuð frétt rúv-sjónvarps tekin af vef rúv í heild sinni:

  Fyrst birt: 26.02.2008 19:04
  Síðast uppfært: 26.02.2008 19:53

  Enn óvíst um losunarkvótaumsókn
  Íslenska ríkisstjórnin lagði í morgun fram sjónarmið sín um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Balí-vegvísinn. Í skjalinu kemur ekki fram hvort Íslendingar hyggist aftur sækja um undanþágu frá losunarákvæðum eins og í Kyoto-bókuninni.
  Niðurstaða loftslagsráðstefnunnar á Balí í haust var í stórum dráttum sú að fulltrúar þjóða heims myndu semja um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í lok næsta árs. Samningalotan er hafin og Íslendingar skiluðu inn sjónarmiðum sínum til loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna í morgun.
  Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra segir að undanþágur og sératkvæði komi ekki til tals fyrr en í lok næsta árs. Í sjónarmiðum samninganefndarinnar er þó vakin athygli á því að Íslendingar hafi takmarkaðri úrræði en flest önnur iðnríki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þar sem fallvötn og jarðhiti sjái þjóðinni fyrir nær allri orku sem hún þarf. Sjálf bindur Þórunn vonir við að losunarheimildir gangi kaupum og sölum á markaði.