Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Unni Stefánsdóttur

    19/08/2011

    Fallin er frá langt fyrir aldur fram kær vinkona, Unnur Stefánsdóttir. Unni kynntist ég í Framsóknarflokknum, en hún gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hann. Leiðir okkar lágu fyrst saman í Landssambandi framsóknarkvenna(LFK) þar sem við unnum samhentar að jafnréttismálum. Síðar tók við farsælt samstarf í kjördæminu og víðar á vettvangi framsóknafólks. Unnur var glæsilegur og framsýnn foringi. Hún var m. a. formaður í Freyju, félags framsóknarkvenna í Kópavogi, einu öflugasta kvenfélaginu okkar. Einnig var hún formaður LFK 1985-1993. Unnur var ötull jafnréttissinni. Á hennar tíð tókst að lyfta grettistaki í þeim málum. Í sögu LFK, sem gefin var út fyrir stuttu lýsir Unnur því hvernig LFK, undir forystu hennar, vann af festu við að auka áhrif kvenna. Haldin voru námskeið m. a. í ræðumennsku, sjónvarpsframkomu og fundarstjórn. Konur voru hvattar til að fara á mælendaskrá á fundum og taka sæti ofarlega á framboðslistum. Karlarnir voru upplýstir um af hverju réttast væri að konur væru sýnilegar og færu líka með völd. Á brattann var að sækja. Eitt lítið dæmi í bókinni lýsir tíðarandanum, baráttunni og réttlætiskennd Unnar, en þar lýsir hún því þegar hún sótti á um, í framkvæmdastjórn flokksins, að konur yrðu fundarstjórar til jafns við karla á miðstjórnarfundum og flokksþingum. Þar segir Unnur"Það vita það sjálfsagt fáir hvað þetta þótti í raun fáránlegt. Bæði var það að þeir sættu sig ekki við þau nöfn sem ég stakk uppá, fannst þær ekki vanar og í raun fannst þeim þetta ekki passa. Það tók marga fundi og símtöl til að koma þessu í gegn. Eftir nokkur ár þótti þetta eðlilegt". Þarna er Unni rétt lýst. Hún barðist alla leið fyrir konurnar í þessu sem öðru. Unnur lét einnig til sín taka í lýðheilsumálum. Það var fyrir hennar frumkvæði sem Alþingi samþykkti manneldis- og neyslustefnu fyrir íslensku þjóðina 1989. Í henni var áhersla á að auka kolvetnisneyslu, minnka sykurneyslu og gera reglulega úttekt á fæðuvenjum Íslendinga. Áhugi Unnar á heilsu kom einnig fram í leikskólastörfum hennar en hún var skólastjóri fyrsta heilsuleikskólans á Íslandi, Urðahóls, og var heilsustefna hans unnin að frumkvæði hennar. Unnur var þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga samhenta fjölskyldu. Hákon stóð þétt við hlið hennar í öllu. Hún var afar stolt af strákunum sínum og dótturinni. Er minnistætt þegar þær mæðgur, geislandi glaðar, mættu saman á jólafund Freyju fyrir 2 árum og Harpa Dís las upp úr nýútgefinni bók sinni Galdrasteinninn. Þá var Unnur stolt. Ég vil þakka Unni fyrir mikilvægan stuðning í stjórnmálum og árangursríka samvinnu. Áhrif verka Unnar ná langt út fyrir raðir eins flokks. Jafnréttisstarf hennar hafði jákvæð áhrif með almennum hætti. Konur í öllum flokkum, sem til Unnar starfa þekkja, munu minnast hennar með þakklæti. Ég þakka Unni og Hákoni fyrir hlýhug og góðar minningar í gegnum tíðina. Hákoni, Finni, Grími, Hörpu Dís og öðrum ástvinum Unnar votta ég mína dýpstu samúð vegna fráfalls hennar. Megi Guð blessa minningu Unnar.