Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Heimildir lögreglu

  03/03/2011

  Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag: Undirrituð flytur þingsályktunartillögu á Alþingi um að rannsóknarheimildir lögreglu verði auknar. Meðflutningsmenn eru úr Framsóknarflokki, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Í nútímasamfélagi er eðli og umfang skipulagðrar glæpastarfsemi breytt frá því sem var. Starfsemi lögreglu þarf að taka mið af þessari þróun. Almennt ratar glæpastarfsemi sem á sér stað í nágrannaríkjum okkar einnig til Íslands og mörg dæmi eru þessu til staðfestingar. Nefna má mansal, en fjarstæðukennt virtist fyrir fáum árum að það mundi rata hingað til lands. Einnig er hér talsverður fíkniefnainnflutningur og aukin umsvif skipulagðra glæpagengja.

  Vegna aukinnar hörku og útsmoginna aðferða við skipulagða glæpastarfsemi hafa nágrannaríki okkar aukið heimildir lögreglu til að sporna við henni. Á síðustu árum höfum við gert okkur grein fyrir að við þurfum að gera slíkt hið sama.

  Í skýrslum Ríkislögreglustjóra síðustu ár um mat á skipulagðri glæpastarfsemi hefur ítrekað verið bent á að slíkar heimildir skorti hér á landi. Einnig hefur Ríkisendurskoðun bent á að heimildir vanti í skýrslu sem bar heitið Ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna - stjórnsýsluúttekt. Þar segir: "Svigrúm yfirvalda til að stunda sértæka eftirgrennslan er takmarkað ef þau hafa ekki heimildir til að beita svokölluðum forvirkum rannsóknaraðferðum (e. proactive investigation). Hafi yfirvöld slíkar heimildir mega þau fylgjast með og safna upplýsingum um einstaklinga þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um brot. Erlendis eru slíkar heimildir yfirleitt bundnar við tilteknar löggæslustofnanir sem háðar eru sérstöku eftirliti."

  Í aðgerðaráætlun gegn mansali frá árinu 2009 segir: "Í tengslum við rannsókn og kortlagningu mansalsmála hér á landi og tengsl við erlenda og skipulagða brotastarfsemi verði þörf lögreglu fyrir heimildir til forvirkra rannsókna metin. Með slíkum heimildum væri unnt að kortleggja betur af hálfu lögreglu umfang starfseminnar og umsvif einstakra aðila og skapa um leið betri grundvöll undir að sækja þá aðila til saka sem skipuleggja og eru á bak við skipulagða glæpastarfsemi á borð við mansal. Þá er lögð áhersla á að lögregla nýti til fulls rannsóknarheimildir sem þegar eru fyrir hendi og er beitt meðal annars við rannsókn fíkniefnabrota."

  Allt ber þetta að sama brunni. Öryggi almennings og friður fyrir afbrotamönnum er mikilvægt velferðarmál og því brýnt að auka rannsóknarheimildir lögreglu