Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Hrafnkell Helgason-minning

    29/10/2010

    Fallin er frá höfðinginn, Hrafnkell Helgason. Leiðir okkar Hrafnkels lágu fyrst saman í gegnum heilbrigðsmál þegar hann var yfirlæknir á Vífilstöðum og tók oft á móti okkur, þingmönnum kjördæmisins, í kynnisferðum um spítalann. Síðar kynntist ég Hrafnkatli betur í tengslum við flokksstarf framsóknarmanna því þar stóð hann þétt við hlið konu sinnar, Sigrúnar Aspelund, en hún hefur sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir framsóknarmenn um árabil. Hrafnkell var afar fróður um fornar sögur og gat farið orðrétt með ýmis tilsvör fornkappa Íslendinga sem fram koma í bókmenntaarfi okkar. Hann var ekki ólíkur fornköppunum sjálfur, hár og glæsilegur á velli, ljós yfirlitum, með djúpa og skýra rödd. Mannkostamaður. Hrafnkell var góður sögumaður og átti létt með að koma fyrir sig orði. Er mér minnisstætt þegar Hrafnkell hreif okkur, konurnar úr Landssambandi framsóknarkvenna, með sér inn í heim fornkappanna á leið okkar í rútu um Borgarfjörðinn áleiðis til Ísafjarðar fyrir nokkrum árum. Þá var hann leiðsögumaður hluta leiðarinnar okkur til fróðleiks og skemmtunar. Hrafnkell fór einnig á kostum í haustferð framsóknarmanna í Garðabæ og Álftanesi fyrir þremur árum þegar við fórum um Suðurland, á Njáluslóðir, undir styrkri leiðsögn hans. Suðurlandið var þeim hjónum afar kært, en þar áttu þau sinn sælureit, bústaðinn, sem þeim þótti báðum svo vænt um. Hrafnkell og Sigrún hafa alltaf verið höfðingjar heim að sækja og eigum við framsóknarmenn margar góðar minningar frá heimboðum þeirra í Móaflötinni í Garðabænum m.a. fyrir þorrablótin góðu í Suðvesturkjördæmi. Fyrir allar þessar góðu samverustundir vil ég þakka. Sigrúnu og öðrum aðstandendum og ástvinum votta ég mína dýpstu samúð vegna fráfalls Hrafnkels. Megi Guð blessa minningu hans.