Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Birnu Árnadóttur

    07/04/2010

    Birna Árnadóttir var heiðurskona. Hún var einn af máttarstólpum Framsóknarflokksins í flokksstarfi um langt skeið. Hún var m.a. virk í Reykjaneskjördæmi, síðar Suðvesturkjördæmi, í Freyju, félagi framsóknarkvenna í Kópavogi og í sveitastjórnarmálum í Kópavogi. Birna var ein af stofnfélögum Freyju, félags framsóknarkvenna í Kópavogi. Hún var góð og gegn Freyjukona, en þær konur hafa yfir sér sérstakan blæ og kraft. Freyjukonur hafa ávallt látið jafnréttismálin mjög til sín taka og aðstæður kvenna og barna á Íslandi almennt. Birna var þar í fararbroddi og beitti sér fyrir því að fleiri konur væru virkar í stjórnmálum, bæði á sveitastjórnar- og landsvísu. Það var gott að eiga stuðning hennar. Birnu lét sér líka annt um þá sem stóðu höllum fæti. Hún var virk í Kvenfélagasambandi Kópavogs og mæðrastyrksnefnd Kópavogs um langt skeið. Man ég eftir opnu húsi hjá mæðrastyrknefndinni þar sem Birna sýndi okkur aðstöðuna, fötin og varninginn. Þar var hún í essinu sínu og öllum hnútum kunnug. Hún lét gott af sér leiða. Birna var einnig virk í orlofnefnd Kvenfélagasambands Kópavogs og var þar formaður í mörg ár, þar til hún féll frá. Birna var skelegg og ákveðin í málflutningi og átti létt með að koma orðum sínum til skila í pontunni á fundum hvort sem var á Freyjufundum, kjördæmisþingum, fundum í Landssambandi framsóknarkvenna eða við önnur tækifæri í flokksstarfinu. Hún var rökföst málafylgjumanneskja og ávallt með hjartað á réttum stað. Ræður hennar voru góðar og oft lúmskt fyndnar því Birna bjó yfir þeim eiginleika að vera gædd hárfínum húmor sem komst oft vel til skila. Birna vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir Framsóknarflokkinn og fyrir það vil ég sérstaklega þakka. Við framsóknarmenn munum sakna Birnu úr flokksstarfinu og minnast hennar með sérstakri hlýju og virðingu. Fjölskyldu Birnu, vinum og ættingjum öllum votta ég innilega samúð mína vegna fráfalls Birnu. Megi Guð blessa minningu hennar.