Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Björn Jónsson

    10/02/2010

    Í síðustu heimsókninni til Björns nú fyrir stuttu fann ég að hann var að kveðja. Hann strauk mér svo blítt yfir hendina og kvaddi mig með orðunum-hafðu það sem best alla tíð. Það var ró og reisn yfir honum eins og alltaf og hann sagði orðin með sérstakri áherslu. Þá skildi ég að þetta væri líklega í síðasta sinn sem við ættum tal saman. Birni kynntist ég í gegnum dóttur hans Heiði, bestu vinkonu mína, þegar við vorum litlar stelpur á Seltjarnarnesinu. Síðan þá hafa leiðir okkar Björns legið saman við óteljandi tækifæri. Hin seinni ár höfum við líka haft ánægju af því að hittast reglulega á vettvangi Rótarýklúbbs Seltjarnarness . Björn var ættaður úr Skagafirði og stundaði þar búskap á sumrin í 10 ár ásamt konu sinni Guðrúnu Magnúsdóttur, frá Sólheimum í Landbrotinu, en hún féll frá fyrir nokkrum árum. Hann hafði gaman af því að yrkja jörðina í sveitinni, hlúa að og fylgjast með vexti gróðurs. Árið 1960 gerðist Björn kennari við Hagaskólann, varð síðar skólastjóri hans og sinnti því starfi um langt og farsælt skeið til 1994. Þar hlúði hann að ungmennum og fylgdist með vexti þeirra og framförum. Hin seinni ár hefur Björn einnig þýtt fjöldann allan af bókum yfir á íslensku en vald hans á íslenskri tungu var óvenju gott. Það var unum að hlusta á hann segja sögur á vönduðu máli. Margar þeirra fjölluðu um arfleið forfeðranna og lífshætti, en sumar voru af dulrænum toga og skildu eftir sig íhugunarefni fyrir okkur sem á hlustuðum. Skógrækt skipaði æ stærri sess í lífsverki Björns með árunum. Í sælureit fjölskyldunnar fyrir austan, þaðan sem Guðrún var ættuð, tókst Birni af mikilli natni, elju- og útsjónarsemi að rækta upp gríðarlega fallegt skóglendi í ófrjósömum jarðvegi. Björn lagði metnað sinn í að ná hröðum vexti trjáa, þó þannig að þau yrðu vel sjálfbær og þyrftu ekki mikla aðhlynningu nema fyrst í stað. Aðferðirnar sem hann notaði voru afrakstur tilrauna hans og hugvits og kenndi hann þær á námskeiðum Skógræktarfélags Íslands og deildi þannig þekkingu sinni með öðrum í þágu skógræktar um allt land. Þann 17. júní sl. sumar var Björn heiðraður fyrir margvíslegt framlag sitt í þágu þjóðarinnar, en þá var hann sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum. Fékk hann orðuna fyrir mikilvægt framlag sitt til uppeldismála, menningar og skógræktar. Undir það síðasta fann Björn að hverju stefndi. Hann átti ekki bágt með að tala um dauðann og var sáttur. Hann var sáttur við að hafa átt gott líf og mjög góða að eins og hann orðaði það. Honum leið vel á sálinni þótt líkaminn gæfi smátt og smátt eftir. Að leiðarlokum við ég þakka Birni fyrir samverustundir okkar og þau áhrif sem hann hafði á mig í gegnum tíðina. Sérstaklega þakka ég stundirnar sem við áttum í skógræktinni fyrir austan á Sólheimum í Landbrotinu, í sælureit Björns, Guðrúnar og fjölskyldunnar allrar. Ég votta Heiði, Hákoni, Kjartani, Röggu, Magnúsi Jóni, Rögnu, Brynhildi og Agnesi Guðrúnu, öðrum ættingjum og vinum mína dýpstu samúð. Guð blessi minningu Björns Jónssonar.