Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Ræða um fjárhagslega ábyrgð á hjúkrunarrýmum

  24/11/2009

  Virðulegur forseti. Þegar fjárlagafrumvarpið leit dagsins ljós kom ýmislegt þar verulega á óvart, þar á meðal sú breyting að gert er ráð fyrir grundvallarbreytingum á fjárhagsábyrgð milli heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins vegna hjúkrunarrýma. Það er alveg ljóst að þegar við fáum upplýsingar um þetta mál og skoðum það, er verið að gera þessar breytingar í andstöðu við þá sem starfa innan heilbrigðisgeirans. Þá á ég ekki bara við starfsstéttir sem ég hef rætt við, heldur líka gagnvart stjórnsýslunni. Við ræddum málið í heilbrigðisnefnd. Þetta mál gengur út á að verið er að færa fjárhagslega ábyrgð á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Rökin sem notuð eru frá hendi félags- og tryggingamálaráðuneytis eru þau að hér sé um heimili aldraðs fólks að ræða, þetta séu eins konar búsetuúrræði. Það kemur verulega á óvart af því að hjúkrunarheimili eru allt annars eðlis. Sú þjónusta sem þar er veitt er ekki almenn öldrunarþjónusta eða búsetuúrræði, heldur hrein heilbrigðisþjónusta. Þannig er það á hjúkrunarheimilum og þannig á það að vera.

  Sú er hér stendur hefur vitað af áhuga hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur um langt skeið á því að færa meira af öldrunarþjónustu yfir til sveitarfélaga. Ég deili að mörgu leyti þeim áhuga en tel algjörlega fráleitt að ganga svo langt að ætla sér að fara með hjúkrunarheimili yfir til sveitarfélaga. Einu rökin sem ég sé fyrir því að færa fjárhagslega ábyrgð á hjúkrunarheimilunum yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins eru ef það hefði átt að færa þau til sveitarfélaganna síðast ásamt einhverjum stærri pakka í öldrunarþjónustu. Að vísu hafa málefni sveitarfélaga færst til samgönguráðuneytis þannig að eiginlega ætti hjúkrunarþátturinn að vera hjá samgönguráðuneytinu, en látum það nú vera, það er nú auðvitað svo vitlaust að menn geta varla hugsað það.

  Við stöndum í þeim sporum að núna á sem sagt að færa án nokkurrar pólitískrar umræðu fjárhagslega ábyrgð á hjúkrunarheimilum frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

  Á sama tíma eiga hjúkrunarrýmin, sem eru algjörlega sambærileg rými, sem eru á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, sérstaklega úti á landsbyggðinni, að vera áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu. Við ætlum sem sagt með þessu að fara inn í svokallað tvöfalt kerfi, við ætlum að hafa sömu þjónustuna. Hjúkrunarrýmin eiga bæði að vistast hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu og hjá heilbrigðisráðuneytinu. Það gengur auðvitað ekki upp þannig að það eru engin rök fyrir því að mínu mæti að færa fjárhagslega ábyrgð á hjúkrunarheimilum yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

  Það hefur ekki farið fram nein pólitísk umræða um þetta. Ég tel að við verðum, áður en lengra er haldið með vinnslu fjárlagafrumvarpsins, að skera úr um hvað rétt er að gera. Við viljum að aldrað fólk búi sem lengst heima. Það á að fá félagslega þjónustu og heilbrigðisþjónustu heim, bæði frá heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga, mat og þrif og annað. Síðan þegar fólkið veikist á það að fá betri þjónustu, þjónustu við hæfi. Þá koma hjúkrunarheimilin til sögunnar. Fólk fer ekki þar inn nú nema það sé mjög veikt og þurfi ýmiss konar hjúkrun. Það er með margþætta sjúkdóma og fer inn til þess að fá þjónustu vegna þeirra, enda sjáum við að launakostnaðurinn, sem er yfirleitt 60-80% á þessum hjúkrunarheimilum, fer að mestu til heilbrigðisstétta. Þetta er í eðli sínu heilbrigðisþjónusta.

  Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver eru rökin fyrir þessari færslu? Af hverju á að stefna okkur í tvöfalt kerfi þannig að fjárhagsleg ábyrgð verði bæði hjá heilbrigðisráðuneytinu og félags- og tryggingaráðuneytinu? Eru þessar breytingar til bóta? Er hægt að finna einhver rök fyrir því? Ég finn þau ekki.