Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Minningargrein um Kristbjörgu Marteinsdóttur

  19/11/2009

  Elsku besta frænka, hún Kittý, er látin aðeins 44 ára gömul. Hún var sterk og barðist við sjúkdóminn eins og sannri hetju sæmir. Baráttuviljinn var mikill og góða skapið framar vonleysi þótt á brattann væri að sækja. Í fyrra sýndi hún t.d. vel hvað það var mikill töggur í henni, þegar hún gekk 63 km. í krabbameinsgöngunni í New York, til að efla Avon sjóðinn, sem styrkir rannsóknir á brjóstakrabbameini. Þrátt fyrir veikindin var hún alltaf svo falleg og glæsileg. Glæsileikinn yfirgaf hana aldrei, hann var ekta og henni í blóð borinn. Í sumar, í fertugsafmæli Unnar á Krumshólum í Borgarfirði, sáum við að hún var orðin mikið veik. Samt var hún hrókur alls fagnaðar og gaf sig á tal við alla. Það var mikil reisn yfir Kittý og hún var full bjartsýni. Við kveðjum hana nú allt of snemma og með miklum trega. Við þökkum fyrir samverustundirnar, sem við áttum s.s. á skíðum, á fótboltaleikjum með strákunum okkar og í gegnum vinnuna. Einnig þökkum við fyrir samverustundir á Sigló og í fjölskylduboðunum hjá Höllu, móðursystur Kittýjar og Hjálmari, föðurbróður okkar og strákunum þeirra Halla Gunna, Tóta og Stebba. Við vottum Ella og börnunum þeirra, þeim Sigurlaugu Töru og Marteini Högna, okkar dýpstu samúð. Einnig Marteini, Sillu, Birki, Höllu Sigrúnu, fjölskyldunni allri og vinum. Við eigum öll góða minningu. Minningu um sterka, glaða, fallega og góða konu. Blessuð sé minning Kittýjar frænku.

  Ingunn Friðleifsdóttir
  Siv Friðleifsdóttir
  Hildur Friðleifsdóttir