Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Margréti Þorsteinsdóttur

    07/09/009

    Margrét Þorsteinsdóttir, mín ágæta framsóknarvinkona úr Hafnarfirði er fallin frá. Við framsóknarmenn eigum Margréti Þorsteinsdóttur mikið að þakka. Hún stofnaði, ásamt nágrannakonum sínum og nokkrum öðrum kvenskörungum, Hörpu, félag framsóknarkvenna í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi árið 1967. Margrét var fyrsti formaður Hörpu og gegndi því forsvari með glæsibrag um langt skeið. Hún var gerð að heiðursfélaga í Hörpunni fyrir nokkru fyrir framlag sitt í þágu félagsins. Harpa hefur alla tíð stutt við bakið á félögum í framsóknarflokknum og stuðlað að bættum hag íbúanna á félagssvæði sínu bæði á sveitarfélaga- og kjördæmavísu. Félagið hefur sérstaklega beitt sér í málefnum fjölskylda og jafnréttismálum og átti t.d. Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, fyrsti kvenbæjarfulltrúi flokksins í Hafnarfirði, góðan stuðning í félaginu, en hún tók við formennsku í því næst á eftir Margréti. Félagskonur í Hörpu hafa tekið sér margt gott fyrir hendur. Þær stóðu t.d. fyrir tómbólu mikilli, sem enn er minnst sökum skemmtilegheita, í húsi nokkru í Hafnarfirði sem nú er löngu búið að rífa. Allur ágóði rann til góðra verka á vegum framsóknarmanna. Þær hafa einnig beitt sér í málefnum St. Jósefsspítala, en þar eru m.a. gerðar sérhæfðar aðgerðir til bættrar heilsu kvenna. Margrét hefur verið einn af máttarstólpunum í flokksstarfi okkar og mætti mjög vel á hina ýmsu félagsfundi og kjördæmisþing, oft með Björn sér við hlið. Ávallt lagði hún gott til málanna og hreif aðra með sér með léttleika og gleði. Margrét var traust, ljúf og framsýn kona. Vil ég þakka Margréti fyrir alla þá vinnu og elju sem hún hefur lagt í flokksstarfið í yfir fjóra áratugi. Einnig vil ég þakka henni og Birni góðan stuðning og ráð í gegnum samstarf okkar í kjördæminu um langt skeið. Með Margréti er gengin góð og merk kona. Hennar verður sárt saknað úr röðum okkar framsóknarmanna. Fjölskyldu Margrétar, Birni, sonunum og öðrum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Margrétar.