Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Kolbrúnu Ólafsdóttur

    30/07/2009

    Fréttir af veikindum Kolbrúnar, eða Kollu eins og við kölluðum hana, komu eins og þruma úr heiðskíru lofti nú á hásumri. Kolla, svona ung hress og lífsglöð, var í einni svipan orðin alvarlega veik. Í viku biðum við milli vonar og ótta og vonuðum það besta, að hún myndi ná sér af veikindum sínum þótt útlitið væri allt annað en bjart. Það er sárt að sjá á eftir kærum vini sem fellur frá langt fyrir aldur fram. Á slíkri stundu finnst manni heimurinn vera óréttlátur, mjög óréttlátur. Kollu kynntist ég fyrst í flokksstarfi Framsóknarflokksins. Lífsskoðanir okkar voru svipaðar og við áttum samleið. Kolla hafði ríka réttlætiskennd og var mikill jafnréttissinni. Hún lét til sín taka í þeim málaflokki og var virk í starfi Landssambands framsóknarkvenna(LFK). Á fjölmennu landsþingi LFK á Ísafirði árið 2005 var hún kjörin í stjórn LFK og varð varaformaður sambandsins. Því starfi sinnti hún með miklum sóma. Kolla var einnig virk í ungliðastarfi flokksins, var um tíma í stjórn Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík-suður, í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna og formaður Varðbergs 2004-2005. Kolla vann líka ötullega í málefnastarfi framsóknarmanna þar sem lögfræðimenntun hennar og þekking á stjórnsýslunni nýttist vel. Í mars 2006 tók hún því boði að verða aðstoðarmaður minn í heilbrigðisráðuneytinu. Þar unnum við síðan saman að mörgum góðum framfaramálum til eflingar heilbrigðisþjónustunnar. Kolla studdi mig dyggilega bæði í sókn og vörn eins og einkennir þann viðkvæma málaflokk. Fyrir það vil ég þakka. Ég vil einnig þakka henni fyrir allar góðu stundirnar í flokksstarfinu,ferðalögunum um landið og í ráðuneytinu. Kolla var hrein og bein og sagði það sem henni lá á hjarta. Fólki sem hefur þessa eiginleika farnast vel. Kollu farnaðist vel þann tíma sem hún fékk meðal manna. Ég veit að henni farnast líka vel þar sem hún er nú. Í byrjun júlí fyrir ári síðan skrifaði Kolla eftirfarandi á bloggið sitt "Það er alltaf erfitt að kveðja fólk sem eru orðnir góðir vinir eða kunningjar. En það er svo sem þannig að þegar um er að ræða góða vini þá heldur maður sambandi eða smellur saman með þeim þegar maður hittir þá næst. Það er snilldin við góðan vinskap!!" Það er erfitt að kveðja Kollu, en ég treysti á að leiðir okkar liggi saman einhvern tímann aftur. Fjölskyldu Kolbrúnar, öðrum ættingjum og vinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.

    Siv Friðleifsdóttir.