Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Landspítalinn

  18/06/2009


  Starfsemi Landspítala háskólasjúkrahúss(LSH) er gríðarlega mikilvæg. Á spítalanum liggja veikustu sjúklingar landsins og þar er boðið upp á sérhæfðustu, viðkvæmustu og flóknustu þjónustuna innan heilbrigðiskerfisins. Umsvif sjúkrahússins eru mikil. Lykiltölur LSH í fyrra sýna að þá leituðu 106.699 sjúklingar til sjúkrahússins, framkvæmdar voru 14.583 skurðaðgerðir, 123.956 myndgreiningar og fæðingar voru 3.376. LSH er stærsti vinnustaður landsins, en þar vinna 5.024 manns í 3.872 stöðugildum. Skoðanakönnun, sem gerð var á sínum tíma, ber ótvírætt vitni um trausta og jákvæða afstöðu almennings gagnvart sjúkrahúsinu og starfsfólki þess. Um og yfir 90% svarenda sögðust bera mjög mikið eða frekar mikið traust til sjúkrahússins og álíka hátt hlutfall taldi sjúkrahúsið veita mjög góða eða frekar góða þjónustu.

  Öryggi og hagræðing

  Um langt skeið hefur verið ljóst að endurnýja þarf úreltan húsnæðiskost sjúkrahússins og sameina starfsemina á einn stað. Rökin bakvið þá niðurstöðu eru mörg og þung s.s. aukið öryggi sjúklinga og hagræðing í rekstri. Síðustu árin hafa þrír stjórnamálaflokkar haldið utan um stjórnvölinn í heilbrigðisráðuneytinu, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir. Á þessum tíma hefur mikil undirbúningsvinna farið fram bæði innan heilbrigðisráðuneytisins og meðal starfsmanna LSH. Það er því ekkert að vanbúnaði við að hefja verkið, nema staða ríkissjóðs. Nú er til skoðunar að fá lífeyrissjóði til liðs við ríkissjóð svo unnt verði að ýta verkefninu úr vör. Vonandi skilar sú skoðun jákvæðri niðurstöðu þannig að framkvæmdir hefjist von bráðar.

  Dýr bið

  Á fundi heilbrigðisnefndar Alþingis nýlega kynnti Hulda Gunnlaugsdóttir, forstjóri LSH, og lykilstjórnendur sjúkrahússins, niðurstöður tveggja norskra arkitektastofa, sem hafa sérhæft sig í starfsemi sjúkrahúsa, um hvernig megi byggja sjúkrahúsið nýja á sem hagkvæmastan hátt. Niðurstaðan er sú að ávinningurinn af því að sameina rekstur Landspítala væri um 19 milljarðar kr. á núvirði til næstu 40 ára. Mun dýrara væri að reka Landspítala áfram við núverandi aðstæður í Fossvogi og við Hringbraut en að sameina reksturinn. Það er því dýrt að bíða. Hagkvæmast væri að byggja við núverandi Landspítala við Hringbraut í fyrsta áfanga og nýta áfram flest hús sem fyrir væru á lóðinni og að unnt væri að áfangaskipta verkefninu í heild. Með áfangaskiptingu yrði viðráðanlegra að hrinda því í framkvæmd og spara 6% í rekstri spítalans þegar að loknum fyrsta áfanga sem svarar til ríflega 2 milljarða kr. á ári. Framkvæmd fyrsta áfanga er mannaflsfrek en áætlað er að 600 manns muni starfa við framkvæmdina, þar af um 100 hönnuðir og verkfræðingar. Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, hefur tjáð opinberlega bæði fyrir og eftir kosningar að hann sé hlynntur því að heimila hönnun og byggingu nýs Landspítala. Fagna ég þeirri yfirlýsingu mjög. Ráðherrann er á réttri leið í þessu máli.