Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Evran

    02/04/2009

    Staðan í gjaldmiðilsmálum Íslendinga er grafalvarleg. Margir, þar á meðal ég, telja að krónan geti ekki verið framtíðargjaldmiðill okkar. Nærtækast er að taka upp evruna vegna mikilla viðskipta okkar við önnur Evrópulönd. Kostir inngöngu í myntbandalag Evrópu væru að vextir myndu lækka og mistök í efnahagsmálum myndu ekki valda lækkun á gengi gjaldmiðilsins eins og nú. Einnig væri auðveldara fyrir almenning að bera saman verð á vöru og þjónustu við önnur evrópuríki og veita þannig fákeppninni sem hér ríkir meira aðhald. Einnig myndi vilji til erlendra fjárfestinga hér á landi aukast. Gallar við upptöku evru er að sveigjanleiki til að mæta tímabundnum áföllum myndi minnka og gengi evru gagnvart dollar og fleiri gjaldmiðlum myndi sveiflast, en þær breytingar eru ekki alltaf hagstæðar í viðskiptum okkar við önnur ríki. Að mínu mati eru kostirnir meiri en gallarnir við upptöku evru. Kaaro Jannari, fyrrum forstjóri finnska fjármálaeftirlitsins, sem fengin var til að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd á fjármálaeftirliti á Íslandi, gerði grein fyrir úttekt sinni fyrir stuttu. Sagðist hann teljur miklar líkur á að Ísland gengi í ESB og tæki upp evru á næstu 5 árum eða svo. Það myndi leysa það vandamál sem er lítill og óstöðugur gjaldmiðil. Ekki skal ég leggja mat á þann árafjölda sem finninn nefnir, en Framsóknarflokkurinn hefur ályktað að hefja beri aðildarviðræður við ESB.

    Aðildarviðræður
    Í ályktun framsóknarmanna segir að aðildarviðræðurnar yrðu á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu. Síðan er skilyrðunum lýst. Í lok ályktunarinnar segir að skilyrðin verði skilgreind í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda og lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræðunum. Framsóknarflokkurinn hefur á þennan hátt ályktað um að hefja beri aðildarviðræður á framangefnum forsendum og að eðlilegast sé að þjóðin taki afstöðu til niðurstöðunnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarmenn telja ekki þörf á að fara í þjóðaratkvæði um hvort hefja beri aðildarviðræður og síðan aftur um niðurstöðu þeirra viðræðna eins og Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði um nýlega.