Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Loksins

    30/01/2009

    Í nokkur ár hef ég verið fyrsti flutningsmaður að frumvarpi á Alþingi um að ráðherra gegni ekki þingmennsku samhliða ráðherradómi. Frumvarpið liggur nú fyrir Alþingi enn á ný. Hingað til hefur ekki verið vilji á Alþingi til að hleypa þessu mikilvæga máli áfram og samþykkja það. Nú er að koma annað hljóð í strokkinn og er það vel. Af hverju ætli augu manna séu nú loksins að opnast fyrir þessari réttmætu og eðlilegu breytingu? Jú, líklega eru tvær ástæður þar að baki. Önnur er sú að dropinn holar steininn, nú hafa líklega fleiri og fleiri áttað sig á mikilvægi málsins. Hin, sem vegur þungt á metunum, er að fólk almennt hefur séð hve brýnt er að aðskilja grunnþætti valdsins nú þegar við viljum byggja upp hið Nýja Ísland. Sú umræða sem fram hefur farið um þessi mál að undanförnu hefur haft jákvæð áhrif á þingmenn og stjórnmálaflokka.

    Réttarríkið

    Íslenskt réttarríki byggist á hugmyndum franskra umbótasinna á 18. öld um greiningu ríkisvaldsins í þrjá þætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsval sbr. 2 gr. stjórnarskrárinnar. Hugsunin með slíkri þrískiptingu var að hver valdhafi um sig takmarkaði eða tempraði vald hins. Einnig að hver hluti ríkisvaldsins fyrir sig átti að vera sem sjálfstæðastur. Þó að stjórnarskrá okkar byggist á þessum hugmyndum gerir hún samt ráð fyrir að ráðherrar geti jafnframt verið alþingismenn. Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er því í raun ekki eins mikill og 2. gr. stjórnarskrárinnar áskilur. Hér á landi hefur líka marg oft verið hatrömm umræða um að aðskilnaður framkvæmdavalds og dómsvalds væri ekki nægur. Umræða um skipun setts dómsmálaráðherra í embætti héraðsdómara á Norðausturlandi er nýjasta dæmið af þessu tagi.

    Stjórnlagaþing

    Ef við Íslendingar ákveðum að aðskilja framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið með því að útiloka að ráðherrar gegni þingmennsku samhliða ráðherradómi erum við að taka upp það fyrirkomulag sem á sér hliðstæðu bæði í Noregi og Svíþjóð. Þar hefur slíkt fyrirkomulag gefist mjög vel. Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um þennan löggjafarvalds og framkvæmdavalds á flokksþingi í mars 2007 og janúar 2009, en á hinu seinna má finna ákvæði um aðskilnaðinn í ályktun flokksþingsins um stjórnlagaþing. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa nú þegar unnið frumvarp um stjórnlagaþing. Stjórnlagaþing mun taka á mörgum brýnum málum sem breyta þarf í stjórnarskránni. Við vonum að frumvarp okkar um stjórnlagaþing fái brautargengi nú þegar hyllir undir nýja ríkisstjórn. Hægt væri að samþykkja það allt eða hluta þess. Nú er lag að breyta. Nú er loksins lag að ákveða að ráðherrar gegni ekki þingmennsku samhliða ráðherradómi og aðskilja þannig betur grunnþætti valdsins.