Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Umhverfisvottun í sókn

    07/10/2008

    Efnahagsmál eru mál málanna í dag. Nú ríður á að horfa fram á veg og vinna sig út úr vandanum til langs tíma litið. Hlúa þarf að undirstöðuatvinnugreinunum s.s. sjávarútveg, stóriðju og ferðaþjónustu á sama tíma og skapa þarf ný tækifæri. Tryggja þarf að við Íslendingar getum selt fiskafurðir okkar á sem bestum verðum og að markaðsaðgengi okkar verði gott. Nokkrar blikur eru á lofti hvað markaðsaðgengið varðar. Er það sökum þess að æ fleiri neytendur gera kröfu um að matvaran sem þeir leggja sér til munns standist umhverfiskröfur, þ.e. að hennar sé aflað, eða hún unnin í sem mestri sátt við umhverfið og beri merki því til staðfestingar. Mikilvægir söluaðilar íslenskra sjávarafurða hafa fyrir löngu orðið varir við þessar nýju og breyttu kröfur og óskað eftir því að fiskafurðir frá Íslandi verði umhverfisvottaðar.

    Enn langt í land
    Í leiðara dagblaðs síðla sumars sem bar yfirskriftina "Kemur vottun of seint?"er þeirri spurningu velt upp hvort við Íslendingar erum of sein á okkur í þessum efnum. Þar kemur fram að íslenskur þorskur hafi horfið úr hillum svissneskra stórmarkaða, nánast eins og hendi væri veifað, eftir áralangt markaðsstarf. Ástæðan sé sú að fiskurinn hafi enga vottun um að hann sé veiddur með sjálfbærum hætti. Íslenska sölufyrirtækið hafði reynt að þrýsta á íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðila um árabil að fá vottun á vöruna , án árangurs. Af þessum ástæðum tapaðist dýrmætur markaður í hendur annarra sem bjóða upp á umhverfismerktar vörur því svissneski markaðurinn borgar vel fyrir íslenskan þorsk. En hvaða stefnu höfum við Íslendingar tekið í þessum efnum? Jú, við getum valið um tvær leiðir. Þær eru að taka upp umhverfisvottun sem er nú þegar til staðar s.s. vottun MSC (Marine Stewartship Council) og Friend of the sea eða byggja upp okkar eigið vottunarmerki. Hagsmunaaðilar í íslenskum sjávarútvegi hafa nokkurn fyrirvara á MSC merkinu og álíta að það hafi óskýra staðla, sé of nátengt vottunarfyrirtækjunum sínum og að umhverfisverndarsamtök hafi of sterk ítök í merkinu. Hér á landi hefur því seinni leiðin verið álitin vænleg. Hefur hópur á vegum Fiskifélagsins verið að undirbúa séríslenskt merki. Starf það hefur dregist talsvert því Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, sagði á sínum tíma að vottunin gæti komist af stað fyrir árslok 2007. Sá tími er löngu liðinn og enn er langt í land.

    Nágrannar velja aðra leið
    Síðasta föstudag afhjúpaði ráðherrann útlit íslenska umhverfismerkisins á kynningarfundi á sjávarútvegssýningunni. Merkið er snoturt og stílhreint. Hinsvegar fylgdi með í kynningunni að ekkert er enn á bakvið merkið, þ.e. innihald þess er ekkert því enginn vottunaraðili stendur á bakvið það. Til að skapa íslenska umhverfismerkinu trúverðugleika er grundvallaratriði að tryggja að þriðji aðili, þ.e. vottunaraðili á borð við Moody Marine eða Bureau Veritas, votti merkið. Er nú unnið að því að fá slíka vottun þ.a. merkið megi nota síðla á næsta ári. Skynsamlegra hefði verið að vera komin lengra með vottun þriðja aðila áður en merkið er kynnt því markaður hefur lítið að gera með merki án vottunar. Á sama tíma og við Íslendingar erum að undirbúa okkar eigið umhverfismerki og huga að því hvernig við kynnum það á erlendum vettvangi í framhaldinu fara nágrannaþjóðir okkar allt aðra leið. Fyrirtæki á Norðurlöndunum ákváðu að bæta samkeppnisstöðu sína með því að byggja ekki upp eigin merki á umhverfisvottaðar sjávarafurðir heldur velja nú þegar þekkta vottun. Völdu þeir vottun MSC. Á hnattræna vísu eru æ fleiri fyrirtæki að velja sömu leið. Hlýtur þessi staða að vekja okkur til umhugsunar.