Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Upplagt tækifæri

    16/09/208

    Harðar kjaradeilur standa nú yfir milli ríkisins og ljósmæðra. Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sem fer með samningsumboðið fyrir hönd ríkisins sagði í umræðum á Alþingi um þessi mál nýlega "Það misvirðir enginn störf ljósmæðra eða gerir lítið úr þeim en staðan er einfaldlega sú í dag undir þessum kringumstæðum að er erfiðara um vik. Það er þrengra um vik til að gera jafnvel það sem menn kalla leiðréttingar eins og staðan er núna." Með þessum orðum gaf ráðherrann þann tón að ljósmæður gætu ekki vænst þess að kjörin yrðu bætt nú frekar en fyrr. Ljósmæður, ein elsta fagstétt kvenna, hafa sýnt langlundargeð og biðlund í gegnum áratugi. Nú er hinsvegar samstaða um að bíða ekki lengur og fyrsta verkfall íslenskar ljósmæðra frá upphafi er staðreynd.

    Leiðrétt í þrepum
    Það er ranglátt að hefðbundin kvennastörf hjá hinu opinbera sem krefjast langrar menntunar og mikillar sérþekkingar séu metin til tuga þúsunda lægri launa en störf annarra sem eru með sambærilega lengd menntunar að baki svo að ekki sé talað um hefðbundnar karlastéttir. Í kaflanum Jafnrétti í reynd í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins segir" Gerð verði áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefnt að því að hann minnki um helming fyrir lok kjörtímabilsins" og "Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta". Allir sem skoðað hafa launaþróun og launamun kynjanna gera sér grein fyrir því að ólíklegt er að launamunur kynjanna verði leiðréttur í einu stóru skrefi þar sem munurinn er talinn vera allt að 15%. Auðveldara er að gera leiðréttingarnar í þrepum.

    Staðfastar konur
    Þrátt fyrir fögur fyrirheit í stjórnarsáttmálanum glopruðu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn upplögðu tækifæri í vor til þess að taka skref í þá átt að minnka launamun kynjanna. Við það tækifæri skrifaði Kristín Á Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands í blaðagrein "Því er ekki að neita að kvennastéttir, líkt og Sjúkraliðafélag Íslands, urðu fyrir verulegum vonbrigðum með viðmót það sem mætti þeim af hálfu fjármálaráðherra við gerð samningsins. Konur töldu fullt tilefni til að mega vænta þess að staðið yrði við það fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að dregið yrði úr kynbundnum launamun. Auk þess sem fyrir lágu margítrekuð fyrirheit um að bæta kjör umönnunarstétta sem að meginhluta eru konur." Og síðar í sömu grein "Þessi gjörð staðfestir að viðhorf ríkisstjórnarinnar er ekki vinsamlegt konum og mikið þarf að gerast til að það álit mitt breytist. Orð og orðagjálfur án efnda er ekki trúverðugt." Orð Kristínar sýna hve konur eru staðfastar í að ná fram sanngjörnu mati á störfum sínum.

    Mistök endurtekin
    Jafnréttisráðherra landsins Jóhanna Sigurðardóttir, var með muninn fyrir neðan nefið þegar hún sagði í opinberri ræðu fyrr á þessu ári "En það eru stór verkefni framundan á sviði kjarasamningagerðar, einkum hjá ríki og sveitarfélögum. Þar mun reyna á stjórnarsáttmálann og þar verðum við að finna leiðir til þess að fjölmennu kvennahópunum, sem halda uppi almannaþjónustunni og hafa setið eftir í launaþróuninni, verði lyft án þess að körlunum sem sitja á toppnum verði lyft margfalt í leiðinni. Ég tel það vera eitt brýnasta jafnréttismál samtímans og um leið eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja bætt kjör uppeldis- og umönnunarstétta." Lítið hefur heyrst frá ráðherranum um þessi mál upp á síðkastið. Þegar eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar, að mati jafnréttisráðherrans Jóhönnu Sigurðardóttur, var í heitri umræðu kaus hún að vísa til þess að stutt er liðið á kjörtímabilið. Hið rétta er að tækfærið sem ríkisstjórninni gafst í vor til að minnka launamun kynjanna var ekki nýtt. Á að endurtaka þau mistök og missa af öðru upplögðu tækifæri núna?