Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Steinunni Brynjúlfsdóttur

    29/08/2008

    Fallin er frá Steinunn Brynjúlfsdóttir langt fyrir aldur fram. Steinunni kynntist ég í flokksstarfi Framsóknarflokksins en hún tók þátt í því, ásamt Halldóri eiginmanni sínum, af miklum myndarskap. Steinunni var mjög umhugað um velferðarmál og lagði áherslu á að hið opinbera kæmi vel á móts við borgarana í þeim málaflokki. Áhugi hennar á þessu sviði nýttist vel í þau ár sem hún var í stjórn Holtsbúðar, hjúkrunarheimilisins í Garðabæ. Steinunn var um tíma í stjórn Framsóknarfélags Garðabæjar- og Álftaness og sýndi þá eins og ávallt flokksstarfinu mikla ræktarsemi. Þau hjónin tóku virkan þátt í flokkstarfinu í kjördæminu. Voru þau fastir gestir á kjördæmisþingum okkar sem og í þorrablótunum og mættu þá oft í félagi við góðvini sína, Steingrím Hermannsson og Eddu Guðmundsdóttur. Síðasta ferð okkar Steinunnar á flokksvísu var á Njáluslóðir, en á þær slóðir fóru framsóknarmenn í september í fyrra undir styrkri leiðsögn Hrafnkels Helgasonar, læknis. Ekki grunaði mig að nú, ellefu mánuðum síðar, yrði komið að kveðjustundinni. Við framsóknarmenn munu sakna Steinunnar í flokksstarfi okkar. Vil ég þakka henni fyrir allar góðu samverustundirnar og stuðninginn á liðnum árum. Halldóri og öðrum aðstandendum og ástvinum votta ég mína dýpstu samúð vegna fráfalls Steinunnar. Megi Guð blessa minningu hennar.

    Siv Friðleifsdóttir