Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Ný löggæsluverkefni

  26/08/2008

  Nýlega kom út mat ríkislögreglustjóra á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Matið, sem er afar fróðleg lesning og það fyrsta sinna tegundar, er unnið af greiningardeild ríkislögreglustjóra. Eitt af hlutverkum greiningadeildarinnar er að vinna stefnumiðaða greiningu um þessi mál til lengri tíma og vinna áhættumat á víðtækum grunni sem taki mið af þróun mála hérlendis og erlendis og segja til um líklega framtíðarþróun þeirra. Matið er kærkomið og ætti að nýtast vel til að upplýsa almenning og aðstoða stjórnmálamenn við ákvarðanatöku á sviði lögreglumála.


  Grundvallarbreyting
  Í matinu kemur fram að nú hefur orðið grundvallarbreyting á skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Hingað til hafa íslenskir ríkisborgarar nánast einir haldið uppi skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi s.s. varðandi smygl, sölu fíkniefna, tóbaks og áfengis. Nú hinsvegar stendur lögreglan hér á landi frammi fyrir breyttum veruleika og ræður þar mest um aukin aðkoma erlendra ríkisborgara að skipulagðri glæpastarfsemi sem og að starfsemin tekur nú til áður óþekktra sviða. Því fer hinsvegar víðsfjarri að erlendir ríkisborgarar, búsettir hér á landi eða erlendis, standi fyrir allri skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi. Íslenskir glæpahópar eru ekki síður fyrirferðamiklir á þessu sviði og telur greiningadeildin að samvinna íslenskra og erlendra glæpahópa muni eflast og verða víðtækari í framtíðinni en nú er.


  Aukin harka
  Helsti vandi löggæslunnar nú og í fyrirsjáanlegri framtíð er að sporna við innflutningi og sölu fíkiniefna og brotum sem þeim oft fylgja s.s. peningaþvætti, skjalafalsi, vændi og ógnunum. Allar upplýsingar greiningadeildarinnar benda til þess að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt hér á landi og gerist sífellt fjölbreyttari. Í matinu kemur fram að þetta eigi ekki síst við um erlenda glæpahópa, en erlendir ríkisborgarar hafa í einhverjum tilvikum verið fluttir inn til skemmri eða lengri dvalar í þeim tilgangi að fremja afbrot. Í matinu kemur fram að vísbendingar eru um að þessi starfsemi sé mun umfangsmeiri en flestir höfðu ætlað. Fram kemur í matinu að aukin harka setur mark sitt á skipulagða glæpastarfsemi hér á landi og að full ástæða sé til að óttast að enn aukin harka, þar með talin vopnaburður, verði viðtekin í íslenskum undirheimum. Þessari þróun fylgir sú hætta að aukinnar andúðar gæti í garð útlendinga almennt og Austur-Evrópubúa sérstaklega sem skapað getur spennu og minnkað umburðarlyndi í samfélaginu. Samkvæmt matinu kann þessi þróun að geta af sér öfgahópa, sem ala á andúð í garð útlendinga og skapað hættu á átökum, pólitískum og raunverulegum, milli hópa og einstaklinga, sem eru á öndverðum meiði í þessum efnum.


  Víðtækari glæpasvið
  Í matinu er fjallað um víðtæk svið glæpastarfsemi sem lögreglan á við að etja sem tengjast m.a. vændi, barnaklámi, mansali, smygli á fólki, ofbeldi, fjársvikum og peningaþvætti. Einnig er sérstaklega fjallað um mögulega hryðjuverkaógn og starfsemi henni tengdri, en fram kemur að á síðustu árum hefur verið komið í veg fyrir fjölda hryðjuverka í nágrannalöndum okkar s.s. í Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku. Greiningadeildin metur hættu á hryðjuverkum hér á landi lága um þessar mundir en tekið er skýrt fram að lögreglan á Íslandi búi ekki yfir forvirkum rannsóknarheimildum innan þessa málaflokks og megi því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila fyrr en fyrir liggi rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. Lærdóminn sem draga má af ofangreindu mati er að löggæslan á Íslandi stendur frammi fyrir gjörbreyttum aðstæðum. Því ber okkur að standa þétt við bak löggæslunnar og efla fjárhagsleg og fagleg úrræði hennar til að viðhalda öryggi Íslands og Íslendinga.