Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Merkilegar sjávarafurðir

  19/08/2008

  Flestir þeir sem hafa puttann á púlsinum vita að umræðan um umhverfisvottaðar sjávarafurðir á markaði er sterk og vaxandi og mun vaxa enn frekar á komandi árum en ekki dvína. Kröfu stórmarkaða og neytenda, um umhverfismerktar sjávarafurðir, ber ekki að afgreiða sem léttvæga kröfu. Gerum við það munum við sitja eftir í samkeppninni um að koma vöru okkar í verð því á fiskmarkaði ríkir hörð ímyndarsamkeppni þar sem aðilar leggja sig fram um að sannfæra neytendur um að varan sé vistvæn.


  Vottun of sein
  Í leiðara Morgunblaðsins 11. ágúst sem bar yfirskriftina "Kemur vottun of seint?"er þeirri spurningu velt upp hvort við Íslendingar erum of sein á okkur í þessum efnum. Að mínu mati ber að svara þeirri spurningu játandi. Í leiðaranum kemur fram að íslenskur þorskur hafi horfið úr hillum svissneskra stórmarkaða, nánast eins og hendi væri veifað, eftir áralangt markaðsstarf. Ástæðan sé sú að fiskurinn hafi enga vottun um að hann sé veiddur með sjálfbærum hætti. Þróun þessi hafi ekki verið óvænt því íslenska sölufyrirtækið hafi reynt að þrýsta á íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðila um árabil að fá vottun á vöruna, án árangurs. Svissneski markaðurinn borgar vel fyrir íslenskan þorsk og erum við því að missa dýrmætan markað frá okkur í hendur annarra sem bjóða upp á umhverfismerktar afurðir.


  Hver er staðan?
  Íslendingar geta valið um tvær leiðir, en þær eru að taka upp umhverfisvottun sem er nú þegar til staðar s.s. vottun MSC (Marine Stewartship Council) og Friend of the sea eða byggja upp okkar eigið vottunarmerki. Hér á landi hefur seinni leiðin verið valin. Gerð íslensku vottunarinnar er ekki stjórnvaldsákvörðun og er sjö manna hópur á vegum Fiskifélagsins að vinna að undirbúningi hennar. Verður sú undirbúningsvinna kynnt í október en verkið hefur tekið mun lengri tíma en áætlað var. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði t.d. í ræðu í Noregi á sínum tíma að vottunin gæti komist af stað fyrir árslok 2007. Til að skapa íslenska umhverfismerkinu trúverðugleika er grundvallaratriði að tryggja að þriðji aðili, þ.e. erlendur vottunaraðili á borð við Moody Marine eða Bureau Veritas, votti merkið. Rétt er að velta nokkrum spurningum upp varðandi íslenska merkið s.s. hvort réttara væri að stjórnvöld hefðu forystu um gerð merkisins þar sem hér er um stórt og viðkvæmt hagsmunamál fyrir þjóðina að ræða sem og að stjórnvöld bera ábyrgð á fiskveiðistjórnunarkerfinu og úthlutun aflamarks? Hver mun eiga merkið? Á að greiða fyrir notkun þess? Hver mun sjá um rekstur merkisins? Hvernig verður merkið markaðsett erlendis og hver mun kosta kynningu þess? Spennandi verður að fá svör við þessum spurningum.


  Nágrannar með vottun
  Eftir talsverðar umræður hafa fyrirtæki á Norðurlöndunum farið aðra leið til að bæta samkeppnisstöðu sína og byggja ekki upp eigin merki á umhverfisvottaðar sjávarafurðir heldur velja nú þegar þekkta vottun, þ.e. vottun MSC. Tvö norsk fyrirtæki hafa slíka vottun á ufsa og sænskt fyrirtæki á síld. Nú eru í sama vottunarferli afurðir frá nokkrum norrænum fyrirtækjum s.s. ýsa, makríll, síld og þorskur frá Noregi, hörpuskel frá Færeyjum, rækja frá Grænlandi og bláskel frá Danmörku. Ástæðan fyrir því að sú leið var ekki valin hér er m.a. það álit hagsmunaaðila í sjávarútvegi hér á landi að MSC hafi of óskýra staðla og aðferðir, þau hafi verið of nátengd vottunarfyrirtækjunum sem vinna fyrir þau og tortryggni í garð tengsla MSC við umhverfisverndarsamtök. Áhættan við séríslenskt merki gæti hinsvegar verið sú að slíkt auðveldaði óprúttnum aðilum að hvetja til sniðgöngu vöru sem merkt væri íslenska merkinu af ástæðum sem tengjast ekki viðkomandi sjávarafurð á neinn hátt. Eitt er kristaltært,óháð því hvort við tökum upp séríslenskt vottunarmerki eða nýtum þau sem fyrir eru, og það er að nú þegar hafa aðilar sem kaupa fisk af okkur í stórum stíl kallað í mörg ár á umhverfisvottaða vöru til að mæta kröfum stórmarkaða og neytenda í hörðu samkeppnisumhverfi um ímynd vörunnar. Hingað til hefur kallinu ekki verið svarað. Sú vanræksla skýrir tap á dýrmætum mörkuðum sem borga vel.