Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Verjum viðkvæm svæði

  15/07/2008

  Nýlega hefur gosið upp umræða um hvort innheimta skuli aðgangseyrir að náttúruperlu eins og Kerinu í Grímsnesi eða ekki. Rökin eru þau að með slíkri innheimtu næðist að fjármagna lausnir til að verja viðkvæma náttúru svæðisins. Ágangur ferðamanna er mikill og á nokkrum svæðum á landinu hefur um langt skeið verið mikil þörf á að grípa til aðgerða til að verja náttúruna. Árið 1999 lagði Geir H. Haarde, þá fjármálaráðherra, fram þetta markmið í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2000(á bls. 361):"Lagt er til að innheimtur verði aðgangseyrir að friðlýstum svæðum og tekjum varið til uppbyggingar þeirra svæða þar sem aðgangseyrir er tekinn. Áætlað er að á árinu 2000 verði innheimtar 15 m.kr." Þessi upphæð væri 23 milljónir króna á núvirði. Greinarhöfundur skipaði starfshóp til að ná fram markmiði fjárlagafrumvarpsins og "gera tillögu að stefnumótun til lengri tíma um aðgangs- og þjónustugjöld á vernduðum svæðum, eða á hvern hátt best megi tryggja nauðsynlegt fjármagn til að byggja upp fjölsótt náttúruverndarsvæði til að mæta vaxandi umferð ferðafólks". Starfshópurinn, sem skipaður var embættismönnum ráðuneyta, stofnana og fulltrúum úr ferðaþjónustunni, náði ekki einhuga afstöðu heldur margklofnaði í afstöðu sinni til hvert stefna bæri. Niðurstaðan varð því sú að Alþingi felldi niður kröfuna um aðgangseyri.

  Aðgangseyrir að náttúruperlum

  Ljóst er að fjármögnunarleiðir eru nokkrar. Fara má sömu leið og fyrr, láta aðallega ríkissjóð og félagasamtök borga brúsann við að skipuleggja og viðhalda viðkvæmum svæðum. Ekki hefur verið sett nægjanlegt fjármagn hingað til úr ríkissjóði til þessa verks og því rétt að skoða nýjar leiðir. Einnig er tæpast rétt að vísa á þessa aðila allri úrlausn þess verkefnis að mæta vaxandi umferð ferðafólks. Önnur fjármögnunarleið er að innheimta aðgangseyrir á allra fjölsóttustu ferðamannastöðunum og dreifa því fjármagni á þá staði sem þurfa mestar úrbætur. Þá þyrfti að breyta náttúruverndarlögum sem í dag gera ráð fyrir að einungis megi nýta aðgangseyrir á sama svæði og innheimtan fer fram. Þessi leið er torsótt að því hátt hlutfall innkomunnar færi í að standa undir sjálfri innheimtunni. Líklega yrði einungis innheimt yfir háferðamannatímann, 15. júní-31. ágúst, greiða þyrfti innheimtumanni o.s.fr. Starfshópurinn áætlaði að væri aðgangseyrir um 300 kr. á núvirði á Gullfossi færi fjórðungur innkomunnar í innheimtukostnað, en í Þjóðgarðinum Jökulsárgljúfur um helmingur innkomunnar. Þessi leið er því dýr í framkvæmd. Einnig þyrfti væntanlega að girða landið að einhverju leyti af til að forðast svindl. Slíkar girðingar væru ekki fallegar í landslaginu. Þeir staðir sem til greina kæmu til innheimtu væru t.d. Ásbyrgi, Skaftafell, Dimmuborgir og Gullfoss.

  Gistináttagjald

  Þriðja leiðin sem hægt væri að fara er að innheimta gistináttagjald, nokkurskonar umhverfisgjald, sem yrði föst krónutala fyrir hverja gistinótt, óháð því hversu dýr gistingin er. Innheimt gjald rynni óskert einungis til uppbyggingar ferðamannastaða um allt land. Á móti gæti ríkissjóður lagt fram jafnháa upphæða á fjárlögum næsta árs eftir innheimtu. Í fyrra voru seldar rúmar 2.6 milljónir gistinætur í landinu öllu(rúmar 1.7 milljónir árið 2000). Væri gistináttagjaldið 100 kr. kæmu þá inn 260 milljónir til verkefnisins auk framlags frá ríkissjóði. Innheimta gistináttagjalds tíðkast víða s.s. í Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Mallorca, Færeyjum og Flórída. Eru gistináttagjöldin á þessum stöðum mishá, oftast milli 100-150 kr. pr. nótt, en liggja öll á bilinu 20-350 krónur pr. nótt, lægst í Færeyjum en hæst í Sviss. Að mínu mati er nauðsynlegt að fram fari umræða um allar þessar fjármögnunarleiðir og ná þokkalegri samstöðu um eina því ferðamönnum, bæði innlendum og erlendum, mun fjölga á komandi árum. Við Íslendingar erum stolt af okkar fallegu og sérstæðu náttúru. Henni viljum við viðhalda, en ekki traðka niður vegna aðstöðu- og skipulagsleysis.