Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Ásta veit betur

    09/05/2008

    Sjálfstæðisflokkurinn þreytist seint á að afneita eigin stefnu eins og sjá mátti í grein sem Ásta Möller, alþingismaður, skrifaði í Morgunblaðið á þriðjudaginn síðasta. Undirrituð hefur leyft sér að minna sjálfstæðismenn á ályktun um m.a. heilbrigðismál sem þeir samþykktu á síðasta Landsfundi sínum en þar segir m.a. "Einkavæðing bankanna hefur sýnt okkur þann kraft sem leysist úr læðingi við það að einkaaðilar taki við rekstri. Nýsköpun og þróunarstarf þessara fyrirtækja hefur skilað þeim góðum árangri bæði hér heima og erlendis. Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála." Hér fjallar Sjálfstæðisflokkurinn um einkavæðingu á svið heilbrigðismála, á því er enginn vafi. Ásta er mjög pirruð þegar framangreind einkavæðingarstefna er rifjuð upp. Sjálfstæðisflokkurinn fer með heilbrigðsmál innan ríkisstjórnarinnar í augnablikinu. Af þeim sökum er eðlilegt að talsmenn annarra flokka líti til þeirrar stefnu sem sjálfstæðismenn hafa samþykkt í heilbrigðismálum. Gaman væri í þessu sambandi að inna Ástu að því hvort hún hafi beitt sér gegn framangreindri ályktun á Landsfundinum eða hvort hún hafi ekki samþykkt þessa stefnu með atkvæði sínu. Sjálfstæðismenn hafa gefið út yfirlýsingar sem benda til að nú eigi að gera miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu. Ekki er enn ljóst á hvaða vegferð flokkurinn er í þessum efnum. Sem dæmi má nefna að Geir H. Haarde,forsætisráðherra, hefur látið orð falla opinberlega um hugsanlegar breytingar. Rétt er að rifja þau upp í tilefni Morgunblaðsgreinar Ástu. Á fundi í Valhöll í haust sagði hann að framundan væru verulegar breytingar á heilbrigðiskerfinu sem ómögulegt væri að ná fram í stjórnarsamstarfi annarra flokka en Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sagði hann orðrétt "Þar eru ótrúlega miklir möguleikar framundan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar voru og hefðu ekki verið." Með því leyndardómsfulla samkomulagi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde treysta sér ekki til að upplýsa almenning um hefur verði sköpuð mjög skaðleg óvissa um framtíð allrar heilbrigðisþjónustunnar. Sjálfstæðismenn hafa einnig skapað mikinn óróa um starfsemi Landspítala-háskólasjúkrahúss(LSH) með því að gefa út yfirlýsingar um að rétt sé að skoða hvort hlutafélagavæða eigi rekstur hans. Heilbrigðisráðherra hefur þar að auki flæmt forystu spítalans burt og sett tvo bráðbirgðaforstjóra yfir reksturinn til 5 mánaða. Reyndar stendur ráðherrann fyrir hreinsunum í málaflokknum þar sem hver forstöðumaðurinn á fætur öðrum er annað hvort hreinsaður burt eða færður til í starfi til að rýma fyrir öðrum sem eru ráðherranum þóknanlegri. Er þessi framkoma í hróplegri mótsögn við nútíma stjórnunarhætti og heilbrigðisráðherra til mikillarar skammar. Ætlar ríkisstjórnin að skapa það afdráttarlausa fordæmi við ríkisstjórnarskipti að forstöðumenn og æðstu embættismenn séu hreinsaðir burt á sama tíma? Framsóknarflokkurinn vann af krafti og fullum heilindum að eflingu heilbrigðisþjónustunnar á síðustu árum í samstarfi við sjálfstæðismenn. Erum við stolt af verkum okkar enda sýnir allur samanburður við önnur lönd að heilbrigðisþjónustan á Íslandi er í fremstu röð í heiminum. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt lagt mikla áherslu á að heilbrigðisþjónustan sé reist á félagslegum grunni þ.a. samfélagið standi sameinað að því að allir geti sótt sér þjónustu á viðráðanlegu verði. Framsóknarmönnum er ekki sama hvað verður um þá uppbyggingu og farsælu þróun sem átt hefur sér stað á þessu sviði undanfarin ár. Við munum því veita ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verðugt aðhald og stíga fast niður fæti ef hin félagslegu gildi heilbrigðisþjónustunnar verða ekki áfram í hávegum höfð. Við viljum að þeim góða árangri sem stjórnvöld hafa náð á síðastliðnum árum í heilbrigðisþjónustunni verði ekki gloprað niður.