Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Minningargrein um Margréti Oddsdóttur frá Jörva í Haukadal

    11/07/2008

    Strax við fyrstu kynni mín af Margréti Oddsdóttur vissi ég að við yrðum vinkonur. Það var fyrir um 24 árum síðan en þá tóku hún og Þorsteinn heitinn á móti mér og sonarsyni sínum á bænum sínum í sveitinni þar sem henni leið alltaf best, á Jörva í Haukadal. Hún var létt í fasi, kvik í hreyfingum og galdraði fram hverja kökusortina á fætur annarri. Hár hennar var sítt, fléttað í langa fléttu sem hún vöðlaði upp í hnút á hvirflinum. Ég man að hún, þá komin upp undir áttrætt, stóð uppi á völtum kolli í eldhúsinu til að teygja sig í eitthvað með kaffinu. Mér, sjúkraþjálfaranemanum, þótti þetta nokkuð hættuspil. En viti menn í stað þess að stíga varlega til jarðar þá hoppað mín léttilega niður á gólfið af kollinum. Ekta Margrét, ekki að tvínóna við hlutina, hoppaði um eins og unglamb þrátt fyrir háan aldur þá. Margréti þótti gaman að rekja ættir og segja frá lífinu í gamla daga, enda bjó hún yfir hafsjó fróðleiks og hafði góða frásagnargáfu. Athyglisvert var að hlusta á hana segja frá hvort sem var góðum atburðum eins og ríklegum slætti og uppskeru eða þungri lífsreynslu eins og þegar hún missti elstu dóttur sína eða systir hennar ákvað að flytja úr landi við erfiðar aðstæður. Margrét var lífsglöð, skemmtileg, ræðin, athugul og vel af Guði gerð á allan hátt. Hún náði líka háum aldri, varð 102 ára og hefur um skeið verið elsti íbúi Dalabyggðar. Þótti henni afar vænt um að á 100 ára afmæli hennar var hún heiðruð af samborgurum sínum og gerð að heiðursborgara Dalabyggðar. Við fjölskyldan höfum átt margar góðar stundir í sveitinni hjá Margréti á Jörva og síðar í Silfurtúni þar sem hún bjó í ellinni. Oft höfum við Þorsteinn, Húnbogi og Hákon hitt Margréti í berja-, rabbabara- eða veiðiferðum. Fyrir þær stundir viljum við þakka. Hennar hlýja viðmót og væntumþykja verður okkur efst í huga þegar við hugsum til hennar í framtíðinni. Við munum minnast hennar af virðingu og þakklæti. Húnboga, Álfheiði, Mörtu og öllum ástvinum Margrétar sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi Guð blessa minningu Margrétar.