Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Konur skildar eftir

  03/06/2008

  Nýlega, þann 25. mai, náðust kjarasamningar milli ríkisins og BSRB. Í þeim samningum urðu margir og þá sérstaklega konur fyrir miklum vonbrigðum. Í opinberri grein 27. mai, í 24 stundum, sem ber yfirskriftina "Orð án efnda eru ekki trúverðug" segir Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands "Því er ekki að neita að kvennastéttir, líkt og Sjúkraliðafélag Íslands, urðu fyrir verulegum vonbrigðum með viðmót það sem mætti þeim af hálfu fjármálaráðherra við gerð samningsins. Konur töldu fullt tilefni til að mega vænta þess að staðið yrði við það fyrirheit í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að dregið yrði úr kynbundnum launamun. Auk þess sem fyrir lágu margítrekuð fyrirheit um að bæta kjör umönnunarstétta sem að meginhluta eru konur." Og síðar í sömu grein "Þessi gjörð staðfestir að viðhorf ríkisstjórnarinnar er ekki vinsamlegt konum og mikið þarf að gerast til að það álit mitt breytist. Orð og orðagjálfur án efnda er ekki trúverðugt." Allt er þetta rétt hjá Kristínu.

  Ráðherrar gleymdu sér
  Viðhorf ríkisstjórnarinnar þarf að breytast hið fyrsta ef nokkur von á að vera til þess að fyrirheit stjórnarflokkanna í stjórnarsáttmálanum rætist en þar segir í kaflanum Jafnrétti í reynd "Gerð verði áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefnt að því að hann minnki um helming fyrir lok kjörtímabilsins" og "Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta".En hvað á Kristín við þegar hún minnist á margítrekuð fyrirheit um að kjör umönnunarstétta yrðu bætt? Jú, ráðherrar, sérstaklega Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafa látið stór orð falla og skapað miklar væntingar í þessum efnum. Jóhanna Sigurðardóttir, ráðherra jafnréttismála, segir t.d. í ræðu þann 11. mars síðast liðinn "En það eru stór verkefni framundan á sviði kjarasamningagerðar, einkum hjá ríki og sveitarfélögum. Þar mun reyna á stjórnarsáttmálann og þar verðum við að finna leiðir til þess að fjölmennu kvennahópunum, sem halda uppi almannaþjónustunni og hafa setið eftir í launaþróuninni, verði lyft án þess að körlunum sem sitja á toppnum verði lyft margfalt í leiðinni. Ég tel það vera eitt brýnasta jafnréttismál samtímans og um leið eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja bætt kjör uppeldis- og umönnunarstétta." Sami ráðherra dró fram í nýlegu sjónvarpsfréttaviðtali að kynbundinn launamunur væri um 15 prósent, að það væri stórt viðfangsefni að leiðrétta hann og að ríkisstjórnin væri staðráðin í því að taka á þessum málum. Nýr kjarasamningur sýnir að ráðherrarnir hafa gleymt stóru orðunum að sinni.

  Vannýtt tækifæri
  Af framansögðu hlýtur maður að spyrja sig nú; Af hverju var ekki tækifærið nýtt núna í kjarasamningsgerðinni til að taka, þó ekki væri nema skref, í átt að minnkun kynbundins launamunar hjá umönnunarstéttum þessa lands? Af hverju þrýstu Jóhanna og Ingibjörg Sólrún ekki á um það? Af hverju var ekki tækifæri nýtt þrátt fyrir að samningstíminn sé ekki langur? Eina vörnin sem fulltúar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafa borið fram til vonsvikinna kvenna er sú röksemdarfærsla að innibyggt óréttlæti verður ekki lagfært í einni svipan, til þess þarf lengri samningstíma. Þessi röksemdarfærsla er afar ótrúverðug. Rétt er að innibyggt óréttlæti verður ekki lagfært í einni svipan. Þess vegna átti að nýta það kærkomna tækifæri sem nú gafst til að taka skref í rétta átt að minnkun kynbundins launamunar. Því tækifæri klúðruðu Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn með glæsibrag og skildu konurnar eftir með sárt ennið. Konur munu halda því til haga í aðdraganda næstu kjarasamninga vorið 2009. Þá munu þær ekki sætta sig við orðagjálfur án efnda.