Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Breytt verklag á Alþingi

  09/04/2008

  Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, hefur lagt sig fram um að efla og styrkja stöðu Alþingis með því að beita sér fyrir samkomulagi um breytingar á bæði ræðutíma þingmanna og starfsaðstöðu þeirra. Við þingsetninguna í haust sagði hann m.a. "Hér hef ég í huga að gera umræður markvissari og snarpari en nú er, en draga úr löngum ræðum og fá þannig betur fram mismunandi sjónarmið þingflokka og þingmanna til mála." Þingforseti hafði forgöngu um að þingflokkar næðu saman um nýtt verklag á Alþingi. Í þeirri vinnu komu þingflokkar sínum sjónarmiðum að og var tekið tillit til þeirra að verulegu marki þótt enginn þingflokkur hafi náð öllum sínum ítrustu óskum fram, eins og gengur. Þann 28. nóvember var útbýtt á Alþingi frumvarpi um breytingar á þingsköpum Alþingis. Fyrsti flutningsmaður var forseti Alþingis, en meðflutningsmenn voru formenn allra þingflokka á Alþingi nema þingflokks vinstri grænna.

  Málþóf hverfur
  Eftir góðar og gagnlegar umræður og nefndarstarf þar sem nokkrar eðlilegar lagfæringar voru gerðar á málinu var það samþykkt þann 14. desember af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum að vinstri grænum frátöldum sem greiddu atkvæði á móti. Alþingi hefur því starfað með nýju og breyttu fyrirkomulagi á yfirstandandi ári. Meginbreytingarnar sem urðu á þingstörfunum eru þær að nú eru strangari tímamörk á ræðum þ.a. ekki er hægt að fara í svokallaðar málþófsræður, ofurlangar ræður með litlu sem engu innihaldi. Umræður á þinginu verða því markvissari fyrir vikið og að auki er auðveldara að reikna út hvenær þingmenn komast að í ræðustólnum eftir því hvernig mælendaskráin lítur út. Almenningi er þannig gert hægara um vik að fylgjast með því hvernig umræðum vindur fram á þinginu.

  Snarpari umræða
  Með nýjum þingsköpum var einnig samþykkt að í upphafi hvers þingfundar yrði alltaf frátekinn hálftími fyrir þingmenn til að fjalla um nýjustu mál líðandi stundar. Er það gert með tvennum hætti, annað hvort með fyrirspurnum til ráðherra eða með umræðum um störf þingsins þar sem þingmenn spyrja hvorn annan eða koma yfirlýsingum á framfæri við þjóðina. Á þessum hálftíma í upphafi hvers þingfundar gefst því kærkomið tækifæri fyrir þingmenn til að veita framkvæmdavaldinu, þ.e ráðherrunum, aðhald og koma sjónarmiðum sínum til mála á framfæri við kjósendur. Fjölmiðlar hafa oftast gert umræðunum í upphafi þingfundar góð skil. Alþingi hefur styrkst með breyttum þingsköpum. Umræðan er skemmtilegri, snarpari og gefur betri sýn á hvert stjórnmálaflokkarnir í raun stefna. Enginn hefur tapað á breytingunni að mínu mati, einungis hagnast ef svo má að orði komast. Sturla Böðvarsson, sem tók forystu í málinu, getur litið á breytingarnar sem rós í hnappagatið á ferli sínum sem forseti Alþingis.