Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
    Mótorhjól og útivist

    26/02/2008

    Í síðustu viku svaraði Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, á Alþingi fyrirspurn minni um stöðu vélhjóla sem notuð eru til ferðamennsku og útivistar. Svarið er lítilfjörlegt og sem köld vatnsgusa í andlit hjólafólks. Ráðherrann er með vandamálagleraugun á nefinu og sér ekki ástæðu til að nálgast þennan útivistarhóp né tillögur hans með nokkrum hætti. Í fyrirspurninni er vísað í nýja skýrslu sem fulltrúar í Umhverfisnefnd Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands, þeir Jakob Þór Guðbjartsson, Ólafur Guðgeirsson, Einar Sverrisson, Leópold Sveinsson og Gunnar Bjarnason, unnu að ásamt Umhverfisstofnun, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Vegagerðinni og spurt hvernig ráðherra hyggist nýta hana. Í svarinu er ekki gerð hin minnsta tilraun til að kveða upp úr um hvort né hvernig ráðherra hyggist nýta skýrsluna. Miðað við svar ráðherra á ekkert að gera með þá vinnu. Þórunn ætti að endurskoða afstöðu sína og taka meira mark á óskum mótorhjólafólks um úrbætur. Í svari ráðherra er einnig alvarleg rangfærsla sem hlýtur að vera mistök af hennar hálfu. Í svarinu segir "Landmælingar Íslands hafa lokið kortlagningu vega og slóða miðhálendisins." Hið sanna er að Landmælingar Íslands hafa náð að kortleggja einungis hluta vega og slóða miðhálendisins í góðu samstarfi við Ferðaklúbbinn 4x4 samkvæmt samstarfssamningi. Miðað við bjartsýnustu spár mun ekki takast að klára það verkefni með takmörkuðum fjárveitingum ráðuneytisins fyrr en í fyrsta lagi í árslok 2009 enda á enn eftir að mæla og kortleggja þúsundir kílómetra í óbyggðum.

    Mótorhjólin æ vinsælli
    Á síðustu árum hefur mótorhjólafólki sem nýta vélhjól til ferðamennsku og útivistar fjölgað mjög mikið og eru þessi hjól nú um 7000 talsins. Hjólum í landinu hefur stórfjölgað á skömmum tíma án þess að stjórnvöld, hvorki ríki né sveitarfélög, hafi brugðist við á nægjanlega markvissan hátt með uppbyggingu aðstöðu og skýrum lagaramma um hvar megi nýta hjólin.Hjólin eru flest á höfuðborgarsvæðinu og hefur aðstaðan þar þó batnað upp á síðkastið. Vélhjólaíþróttaklúbburinn(VÍK) náði þeim árangri á sínum tíma í samstarfi við Reykjavíkurborg og fleiri að fá úthlutað svæði fyrir motocrossbraut í Álfsnesi. Í júlí 2005 var svo skrifað undir samning VÍK, Landssambands Íslenskra Vélsleðamanna, Reykjavíkurborgar og Sveitarfélagsins Ölfus um nýtt svæði við Bolaöldu sem hentar vel motocross- og endurohjólahópnum og vélsleðamönnum. Búið er að vinna mikla sjálfboðavinnu á svæðinu og er þar að verða til hin prýðilegasta aðstaða.

    Skipuleggja þarf aðgengi
    Í síðasta mánuði var haldinn afar fjölmennur stofnfundur Ferða- og útivistarfélagsins Slóðavina en í því félagi eru einstaklingar og fjölskyldur sem nýta sér mótorhjól til ferðamennsku og útivistar á vegslóðum um hálendi og láglendi. Stofnfundurinn er enn ein birtingarmynd þess að mótorhjólin njóta æ meiri hylli til útivistar hér á landi. Í dag er ekki nægjanlega skýrt hvar nýta megi hjólin s.s. á slóðum á hálendinu og hvar ekki. Hefur m.a. komið til dómsmála vegna þessa þar sem deilt hefur verið um hvað sé slóði og hvað ekki. Brýnt er að stjórnvöld vinni markvisst að því að greiða úr óvissunni því það er hagur allra aðila að reglur séu skýrar. Langflest mótorhjólafólk sýnir góða umgengni um landið og fordæmir utanvegaakstur. Forystumenn mótorhjólafólks eiga hrós skilið fyrir framlag sitt gegn utanvegaakstri en það hefur staðið fyrir markvissri uppfræðslu á því sviði. Margir hópar nýta hálendi Íslands í dag s.s. göngufólk, hestafólk, mótorhjólafólk, jeppafólk og aðrir almennir ferðamenn. Allir þessir hópar eiga rétt á sér. Stjórnvöld verða því að taka sér tak og skipuleggja aðgengi þessara hópa að landinu í sátt við náttúruna svo allir geti vel við unað. Það er áríðandi út frá náttúruverndarsjónarmiðum að aðgengi mótorhjólafólks sé vel skipulagt.