Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 8.-14. september 2012

Föstudagur 14. september

Um morguninn var flug til Ísafjarðar, en þar hófst umdæmisþing rótarýklúbbanna á Íslandi síðar um daginn.

Kl.15 var umdæmisþingið sett í Ísafjarðarkirkju.

Kl.18:30 hófst kvöldverður í Turnhúsinu í Neðstakaupstað.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var heiðursgestur.

Fimmtudagur 13. september

Kl.12 hófst opinn fundur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, á Grand hóteli og fjallaði hann um skuldavanda heimilanna.

Miðvikudagur 12. september

Kl.15:15 hófst kynning á fornleifauppgreftrinu við hlið Alþingis.

Kynningin fór fram í Oddfellowhúsinu.

Kl.17 var sjósund.

Kl.20 hófst umræða um stefnuræðu forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Vigdís Hauksdóttir og Höskuldur Þórhallsson töluðu fyrir hönd okkar framsóknarmanna.

Þriðjudagur 11. september

Kl.13:30 hófst þingsetningin á því að gengið var til Dómkirkjunnar og síðan í þingsal.

Eftir þingsetninguna var þingflokkur framsóknarmanna myndaður í alþingisgarðinum.

Síðan hófst þingfundur á því að þingmenn drógu um sætaskipan eins og gert er í upphafi hvers þings.

Í öðrum þjóðþingum er setið eftir kjördæmum eða flokkum, en hér eftir "happdrætti" þar sem við drögum kúlu með númeri úr trékassa sem er við hlið forseta þingsins.

Er það skemmtileg venja. Man ég að á fyrsta þingi mínu sat ég milli Jóns Baldvins Hannibalssonar og Kristins H. Gunnarssonar.

Að þessu sinni lenti ég í sæti 36, sætinu sem Kristján Þór Júlíusson vermdi á síðasta þingi.

Mér á hægri hlið er Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavík suður og á þá vinstri Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Svo heppilega vill til að aftan við mig er hurð þannig að flóttaleiðin er greið ef eitthvað kemur upp á og á þarf að halda.

Kl.17 skrapp ég í sjósund. 

Mánudagur 10. september

Kl.10-15 var ég á þingflokksfundi framsóknarmanna á flokksskrifstofunni á Hverfisgötunni.

Kl.17 var sjósund, en í dag var hitastig sjávar 9,2 gráður.

Sunnudagur 9. september

Í dag skokkaði ég tæpa 11 kílómetra.

Um kvöldið komu mamma og Húni í mat.

Laugardagur 8. september

Dagurinn fór að mestu í tiltektir.