Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 4.-10. ágúst 2012

Föstudagur 10. ágúst

Kl.9 hófst stjórnarfundur Norræna menninarsjóðsins á því að sunginn var afmælissöngur í tilefni fimmtugsafmælis míns.

Ég verð að viðurkenna að það var mjög skrýtið að vera fjarri fjölskyldu og heimalandinu á slíkum tímamótum.

Skrýtið en gaman samt.

Fundinum lauk kl.16, en þá höfðum við rætt um áherslur sjóðsins á komandi árum.

Eftir fundinn fórum við beint á Þjóðarsafn Grænlands þar sem við sáum m. a. frægu múmíurnar sem hafa varðveist svo vel í köldu þurru loftslaginu.

Um kvöldið borðuðum við hörpuskel og fisk á veitingastaðnum á Hótel Hans Egede.

Í dag fékk ég mörg símtöl og sms í tilefni dagsins, sem mér þótti mjög vænt um að fá.

Ekki komst ég inn á tölvupóstinn og verð ég því að lesa kveðjurnar þar síðar.

Fimmtudagur 9. ágúst

Kl.9 fóru fulltrúar Norræna menningarsjóðsins í Menningarsafnið í Nuuk.

Síðan skoðuðum við bæinn og komum við á leiði Jonatans Mozfeldt.

Eftir hádegi lá leið okkar í Náttúrurannsóknarsetrið og Háskólann í Nuuk.

Um kvöldið borðuðum við heima hjá Line, ráðuneytisstjóra í grænlenska félags- og menningarmálaráðuneytinu, en hún er fulltrúi Grænlands í stjórn Norræna menningarsjóðsins. 

Hjá henni smökkuðum við m. a. sauðnaut og hreindýr og hún sýndi okkur grænlensku þjóðbúninga barna sinna.

Miðvikudagur 8. ágúst

Skoðuðum Garða(Igaliko)um morguninn, m. a. fornleifauppgröftinn.

Einnig kirkjuna á staðnum

Um hádegisbil var ljóst að stjórnarmeðlimir Norræna menningarsjóðsins sem voru veðurtepptir í Syðri-Straumfirði, myndu ekki geta lent í Narsasuaq og ákváðum við því að sigla með Bóbó og Massa aftur til Narsasuaq og fljúga þaðan til Nuuk.

Um kl.17 tókst að fljúga og við lentum heil í Nuuk.

Þriðjudagur 7. ágúst

Kl.13:45 var flug til Grænlands, en þar er sumarfundur stjórnar Norræna menningarsjóðsins.

Á leiðinni var tilkynnt að ekki væri víst að hægt yrði að lenda í Narsasuaq vegna þoku.

Vélinni tókst samt að lenda í annari tilraun.

Þar tóku grænlensku fulltrúarnir á móti okkur.

Næst  lá leiðin í Brattahlíð þar sem við skoðuðum langskálann og Þjóðhildarkirkjuna.

Síðan sóttu Bóbó, skipstjóri og Massi, háseti, okkur á bát, en þeir vinna á sumrin fyrir fyrirtækið Blue ice við að ferja fólk um suður Grænland.

Bóbó þekki ég úr haglabyssuskotkeppnum, en hann er stórgóð skytta og byssusmiður.

Fórum við úr bátunum í Görðum, sem heitir Igaliko á grænlensku.

Þar elduðu íslenskar konur matinn, þær Jóna Guðrún Ólafsdóttir og Antonía Helga Helgadóttir, frá Vaðnesi.

Jóna er eiginkona Bóbó og hafa þær Jóna og Helga unnið á Grænlandi við matseld á sumrin.

Meðal annars hafa þær eldað fyrir Margréti Þórhildi, danadrottningu, á ferð hennar um svæðið.

Í Igaliko voru einnig m. a. Orri Vésteinsson, forleifarfræðingur, ásamt nokkrum Íslendingum og erlendum kollegum að grafa upp og rannsaka.

Í Igaliko var fyrsta biskupasetrið á Grænlandi og nokkur norræn byggð.

Mánudagur 6. ágúst

Dagurinn nýttist í að lesa gögn vegna fundar norræna menningarsjóðsins.

Einnig í létt skokk í góða veðrinu.

Sunnudagur 5. ágúst

Á leiðinni heim var áð við Jökulsárlónið og Skaftafell.

Einnig var tími til að skreppa í Fjaðrárgljúfur í blíðunni.

Laugardagur 4. ágúst

Í dag  lá leiðin austur á land.

Á leiðinni var tími til að stoppa, borða nesti og fara í hressandi sund í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi og í Kálfafellsdal.

Kl.21 voru skemmtilegir opnunartónleikar Jussanam da Silva í menningarstöðinni Nýheimum á Höfn.

Þeir eru fyrstir í tónleikaröð hennar um Norðurlöndin.