Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 24.-30. mars 2012

Föstudagur 30. mars

Kl.10:30 hófst fundur á Alþingi.

Kl.12:15 var fundur í Rótarýklúbbi Seltjarnarness.

Eftir hádegi mælti ég fyrir þingsályktun minni og fleiri um -ætlað samþykki- við líffæragjafir.

Fer nú málið til velferðarnefndar og verður sent til umsagnar.

Fimmtudagur 29. mars

Kl.8:30 var ég á beinni símalínu til þingsins á Álandseyjum að ræða við þingmenn þar um bannið sem við settum á nektardans á Íslandi fyrir um 2 árum.

Kl.9 hófst fundur allsherjar- og menntamálanefndar.

Kl13:30 var ársfundur Rannsóknarsetra Háskóla Íslands á Selfossi.

Kl.19 komu Húni, Elín Björk, Hákon og mamma í kjúkling.

Um kvöldið fór ég á Alþingi, en þá kom í ljós að þinginu tækist ekki að klára, í tæka tíð fyrir miðnætti, að afgreiða þjóðaratkvæðagreiðslu málið vegna stjórnarskrárinnar.

Voru það vonbrigði.

Miðvikudagur 28. mars

Kl.8 hófst fundur félagsfræðinga á Grand hótelinu þar sem fundarefnið var skipulagðir glæpahópar á Íslandi.

Kl.10:30 var atkvæðagreiðsla um hvort vísa bæri stjórnarskrármálin til nefndar.

Í atkvæðaskýringu minni gerði ég athugasemdir við hvernig boðað var til atkvæðagreiðslu í gær.

Hér er linkur á frétt mbl.is um málið og var hún næst mest lesna fréttin mér til mikillar furðu.

Kl.12:30 var þingflokksfundur.

Kl.15 hófst aftur fundur á Alþingi.

Kl.17:30 vorum við Hrönn, upplýsingafulltrúi Sniglanna, í beinni útsendingu í síðdegisútvarpinu á Rás 2 hjá Rúv um mótorhjólamenn og að þeir tengist almennt ekki skipulögðum glæpagengjum.

Hér er tengill á viðtalið.

Ræddum einnig tillögu þingflokks framsóknarmanna um að banna beri slík gengi á grundvelli 74 gr. stjórnarskrár og 175 gr.a. í hegningarlögum.

Um kvöldið bauð Ingunn systir okkur mömmu í lax og krækling.

Þriðjudagur 27. mars

Kl.9 hófst fundur allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Kl.12 var fundur í Þjóðmenningarhúsinu um úttektarskýrslu norskra stjórnvalda um EES samninginn og hvernig áhrif hans hafa verið á norskt þjóðlíf. 

Fundurinn var ótrúlega skemmtilegur miðað við efni hans.

Kl.13:30 hófst fundur á Alþingi.

Í dag var útbýtt þingsályktun minni um gæðamerkið "broskarlinn", eða smiley eins og hann heitir á ný dönsku.

Einnig var útbýtt þingsályktun framsóknarmanna undir forystu formannsins um að banna beri skipulögð glæpagengi á grundvelli 74. gr. stjórnarskrárinnar og 175 gr.a. hegningarlaga.

Kl.18:00-20:15 var opinn fundur um ímynd bifhjólamanna haldinn á Grand hótelinu, en þar var ég ein af frummælendum og sat í pallborði ásamt Björgvini G Sigurðssyni, formanni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, Karli Steinari Valssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni, Atla, formanni LÍM og Bergi Kristinssyni, formanni Sniglanna.

Fundurinn, sem var líflegur og gagnlegur, samþykkti ályktun sem hljóðar svo:

"Fundarmenn á opnum fundi um ímyndarmál bifhjólafólks, haldinn á Grand hótel Reykjavík, þriðjudaginn 27. mars 2012 lýsa yfir fullum stuðningi við lögreglu og stjórnvöld í starfi sínu við að uppræta skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi og vilja koma því á framfæri að almennt eru ekki tengsl á milli mótorhjólamanna og glæpagengja".

Á fundinum var nokkur umræða um hvernig best væri að standa að slíkri ályktun og var niðurstaðan sú að álykta í nafni þeirra fundarmanna sem sóttu fundinn en ekki í nafni félaga mótorhjólamanna.

Nokkur umræða hefur verið upp á síðkastið um að brýnt sé að tengja ekki skipulagða glæpastarfsemi við mótorhjólafólk almennt.

Fundurinn var rós í hnappagat mótorhjólamanna því á honum sýndu fundarmenn samstöðu um að uppræta beri skipulagða glæpastarfsemi í samfélaginu.

Ályktun af þessu tagi og öll önnur samstaða sem sýnd er í baráttunni gegn skipulagðir glæpastarfsemi skiptir lögreglu og stjórnvöld miklu máli.

Með víðtækri samstöðu í samfélaginu er unnt að ná árangri.

Barátta þessi getur ekki verið einkamál lögreglu og stjórnvalda, hún þarf að vera barátta samfélagsins alls.

Snemma um nóttina var ég á Alþingi því þá hafði Ragheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, beðið um að greidd yrðu atkvæði um hvort stjórnarskrármálið ætti að fara til nefndar.

Ekki náðist tilskilinn fjöldi þingmanna í atkvæðagreiðslu og var henni því frestað til morguns.

Komst ég í háttinn um kl.02.

Mánudagur 26. mars

Kl.13 var þingflokksfundur framsóknarmanna á Alþingi.

Kl.15:15 hófst fundur allsherjar- og menntamálanefndar.

Um kvöldið komu Húni, Elín Björk, Hákon og mamma í lambalæri.

Sunnudagur 25. mars

Dagurinn nýttist að hluta í að skila af sér tillögum á netinu vegna úthlutunar úr Norræna menningarsjóðnum.

Laugardagur 24. mars

Kl.11 var morgunkaffi framsóknarmanna í félagsheimilinu á Digranesvegi 12.

Síðan fór ég í kaffi til Ingunnar systur.

Seinni partinn nýttist tíminn til að lesa doðrant vegna Norræna menningarsjóðsins.