Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 14.-20. janúar 2012

Föstudagur 20. janúar

Kl.10:30 hófst þingfundur á umræðum um tillögu um svokalla Landsdómsmál á Alþingi.

Framan við þingið var komið með stóran stein í mótmælaskyni.

Kl.12:15 var rótarýfundur í Rótarýklúbbi Seltjarnarness.

Kl.15 var vöfflukaffi á flokksskrifstofu Framsóknarflokksins.

Kl.17-19 kynnti ég guðfræðinemum úr HÍ starf og stefnu Framsóknarflokksins.

Kl.21 var atkvæðagreiðsla í svokölluðu Landsdómsmáli þar sem fellt var að vísa málinu frá með 31 atkvæði gegn 29 atkvæðum.

Málið fer nú til stjórnskipunar- og eftirlistnefndar.

Síðan lá leiðin á NASA þar sem bandaríska sendiráðið hélt hóf í tilefni 70 ára stjórnmálasambands við Ísland.

Fimmtudagur 19. janúar

Kl.8:30 hófst fundur í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis þar sem við fengum m. a. kynningu á kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi.

Einnig komu fulltrúar frá Europol til að kynna fyrir okkur skipulagða glæpastarfsemi og starfsemi gengja á Íslandi.

Europol er að vinna skýrslu um slík gengi í Evrópu.

Kl.11-13 heimsótti ég Stuðla, meðferðarstöð fyrir unglinga, til að kynna mér þá starfsemi sem þar fer fram.

Þar er bæði neyðarvistun og meðferð.

Yfir 300 komur eru í neyðarvistun árlega(hópurinn er um 100 ungmenni) og um 50 ungmenni fara i gegnum meðferðarúrræði á ári.

Neyðarvistun er að mestu um 14 dagar, en meðferðarúrræðin eru oftast 8 vikna tímabil.

Starfsemin sem fer fram á Stuðlum er talsvert meiri en ég hafði gert mér í hugarlund fyrirfram.

Um kl.13 lá leiðin á ráðstefnu um samspil greiðsla úr lífeyrissjóðum og almannaatryggingum á Grand hótelinu.

Seinni partinn var ég á skrifstofunni.

Kvöldið fór í að lesa gögn fyrir næsta fund velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Í dag kynnti Mjólkursamsalan nýjan skyrdrykk sem verður merktur með norræna hollustumerkinu, Skráargatinu.

Hér er linkur á heimasíðu MS um skyrdrykkinn.

Ég hef verið fyrsti flutningsmaður þess að við tökum upp norræna hollustumerkið Skráargatið og flutt mál þess efnis á Alþingi í tvígang.

Hér er linkur á málið, en vonandi samþykktir Alþingi það á næstu dögum eða vikum.

Ég óska Mjólkursamsölunni innilega til hamingjum með að skella sér í Skráargatið.

Glæsileg og framsýn ákvörðun hjá þeim sem auðveldar neytendum að velja hollar matvörur.

Vonandi fylgja fleiri fyrirtæki sem fyrst í kjölfarið.

Nú þegar hefur Árla ehf., sem framleiðir morgunkorn úr íslensku byggi, tekið upp Skráargatið og Myllan lýst yfir áhuga á að nota það á þær vörur sem standast hollustukröfurnar.

Íslensk fyrirtæki eru því að undirbúa sig fyrir að auðvelda neytendum hollara val.

Miðvikudagur 18. janúar

Kl.13:30-15:00 var þingflokksfundur.

Kl.15 hófst fundur á Alþingi þar sem við m. a. samþykktum þingsályktunartillögu um að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ragnheiður Elín Árnadóttir er fyrsti flutningsmaður, en ég ásamt nokkrum öðrum erum meðflutningsmenn.

Hér er linkur á frétt ruv-sjónvarps um málið.

Einig tók ég þátt í umræðu um stöðu kvikmyndagerðar á Íslandi.

Kl.16:30 lá leiðin í Iðnó á kynningu á markaðsmálum Iceland Seafood.

Síðan sýndi ég fólki frá Bretlandi, Rússlandi og Noregi þingið.

Um kvöldið kom Hákon í mat.

Þriðjudagur 17. janúar

Kl.9:30 fundaði ég með nokkrum líffæraþegum í aðstöðu Hjartaheilla.

Var svo að mestu í þinginu.

Hér er frétt af mbl.is vegna svars við fyrirspurn minni um tvísetningu fangaklefa.

Mánudagur 16. janúar

Kl.8:30 hófst sameiginlegur fundur velferðarnefndar og allsherjar- og menntamálanefndar um Barnasáttmála SÞ.

Kl.12 var þingflokksfundur framsóknarmanna á Alþingi.

Kl.15 hófst þingfundur, sá fyrsti að afloknu jólahléi.

Af því tilefni var listaverkið NO sýnt á Austurvelli framan við þinghúsið.

Kl.17 skrapp ég í sjósund, en hitastig sjávar var 3,5 gráður.

Kl.18:30 svaraði umhverfisráðherra fyrirspurn frá mér um ósnortin víðerni.

Hér er linkur á umræðuna.

Í dag var útbýtt skriflegu svari innanríkisráðherra til mín um fangelsismál og tvísetningu fangaklefa.

Kl.21 var opinn fundur Framsóknarflokksins á Flúðum.

Sunnudagur 15. janúar

Dagurinn fór að mestu í tiltektir og eldamennsku.

Um kvöldið komu mamma, Húni, Elín Björk og Hákon í mat til mín.

Laugardagur 14. janúar

Kl.10:30 var morgunkaffifundur framsóknarmanna í Reykjanesbæ.

Á heimleiðinni lá leiðin á morgunkaffifund framsóknarmanna í Kópavogi.

Um kvöldið var fordrykkur fyrir þorrablót framsóknarmanna bæði í Efstaleiti og hjá Unu Maríu.

Kl.20 hófst glæsilegt þorrablót framsóknarmanna í Lionssalnum í Kópavogi.

Heiðursgestir voru Guðni Ágústsson og Margrét Hauksdóttir, en Guðni hélt hátíðarræðu kvöldsins.

Í blótinu voru fjölmörg heimasmíðuð skemmtiatriði sem féllu í góðan jarðveg.

Í dag er dagbókin á heimasíðu minni 10 ára því fyrir 10 árum hófust daglegar dagbókarfærslur í henni.

Heimasíðan sjálf er eldri þar sem hún komst í gagnið í mars 1999 fyrir alþingiskosningarnar það ár.

Dagbókin er myndskreytt og eru 19.389 myndir tengdar við atburðina sem ég hef fjallað um.

Sá myndafjöldi endurspeglar að settar eru inn að meðaltali 5,3 myndir á dag í dagbókina.

Suma daga set ég engar myndir inn, aðra daga margar, allt eftir því hvaða spennandi atburði drífur á dagana.

Í tilefni 10 ára afmælisins þakka ég öllum þeim gestum sem heimsækja heimasíðuna.