Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 22.-28. október 2011

Föstudagur 28. október

Kl.9:30 hófst fundur Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í menntamálaráðuneytinu með Katrínu Jakobsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlandanna en Norðurlandaráðsþingið er haldið í byrjun næstu viku.

Kl.12:15-13:30 var fundur í Rótarýklúbbi Seltjarnarness.

Kl.14:30-15:30 var fundur í stjórn Rótarýklúbbs Seltjarnarness.

Kl.16:30 var tími hjá tannlækni, þ. e. Ingunni systur.

Fimmtudagur 27. október

Fór á dekkjaverkstæðið með loftlaust dekk og til Heiðar.

Var síðan á skrifstofunni á Alþingi að vinna í gögnum.

Miðvikudagur 26. október

Kl.12-14 heimsótti ég ÁTVR.

Þar skoðaði ég m. a. neftóbaksframleiðsluna.

Vakti það athygli mína að ammoníaki er blandað í neftóbakið á vinnslustigi.

Fyrir stuttu héldu flestir, þ. á. m. stjórnvöld, að neftóbaksnotkun myndi fjara út með þeim fáu neftóbakskörlum sem eftir eru í landinu.

Raunin er þvert á móti sú að stóraukning hefur orðið í notkun neftóbaks á Íslandi því ungmenni, s. s. um 20% stráka, setja neftóbakið á vitlausan stað, þ. e. í vör.

Þannig er neftóbakið í raun notað sem munntóbak.

Munntóbak er bannað á Íslandi eins og í flestum Evrópuríkjum.

Í flestum Evrópuríkjum er neftóbak bannað.

Íslendingar hafa skuldbundið sig, samkvæmt WHO, til að vinna gegn nýjum neysluformum tóbaks og ættum við því að banna neftóbak af heilsufarsástæðum.

Þriðjudagur 25. október

Dagurinn fór í að lesa gögn og fleira.

Kl.16 sýndi ég tveimur kanadískum konum, sem hafa verið virkar í verkefninu Students on ice, Alþingi.

Mánudagur 24. október

Í dag funda þingmenn Suðvesturkjördæmis með fulltrúum sveitarfélaga í kjördæminu.

Kl.9 var fundur með fulltrúum Mosfellsbæjar.

Kl.10:30 var fundur með fulltrúum úr Kjósinni.

Kl.12:00-13:30 var málþing í hátíðarsal Háskóla Íslands um umræðuhefðina í stjórnmálum og stöðu kvenna í stjórnmálum.

Kl.14:30 var fundur þingmanna SV-kjördæmis með fulltrúum Kópavogsbæjar.

Sunnudagur 23. október

Kl.8:30 hófst lokadagur heilbrigðisráðstefnu NordAN sem ég sæki fyrir hönd velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Kl.10:00-10:30 hélt ég ræðu og lýsti stöðu mála á Íslandi og kynnti starfsemi Norðurlandaráðs í velferðarmálum.

Um kvöldið var flug heim í gegnum Köben.

Laugardagur 22. október

Kl.8:30 hófst heilbrigðisráðstefna NordAN sem ég sæki fyrir hönd velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Seinni partinn fórum við Beate, ritari velferðarnefndar Norðurlandaráðs, að skoða KGB-safnið í Vilníus.