Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 9.-15. júlí 2011

Föstudagur 15. júlí

Dagurinn fór í útréttingar og lestur.

Skrapp líka í sjósund og að skoða litla ömmubarnið hennar Heiðar.

Hér er frétt sem birtist í dag í Fréttablaðinu og eru um stúdíóið sem við Guðný settum upp fyrir Al Jazeera í Syðri-Knarrartungu.

Fimmtudagur 14. júlí

Um miðjan daginn fór ég í viðtal við Fréttablaðið og vann í tölvunni.

Seinni partinn nýttist tíminn í góða göngu í Hafnarfirði.

Um kvöldið vorum við Hákon í grilli hjá Húna og Elínu Björku.

Hér er athyglisverð frétt sem birtist á pressunni eftir Þórarinn Guðnason, hjartalækni, um þingsályktun mína og fleiri um 10 ára tóbaksvarnaráætlun.

Miðvikudagur 13. júlí

Fyrri hluti dags nýttist í að vinna í tölvunni.

Seinni partinn skrapp ég í heimsókn í heimahús og um kvöldið út að skokka á Ægissíðunni.

Þriðjudagur 12. júlí

Um miðjan daginn nýttist tíminn m.a. í að skoða kirkjugarðinn á Búðum.

Síðan lá leiðin aftur suður.

Kl.19 fór ég í viðtal fyrir þátt á Al Jazeera vegna tóbaksmálsins í Alþingisgarðinum, en þátturinn verður sýndur hjá þeim eftir nokkra daga skilst mér.

Í gær var ég í beinni sjónvarpsútsendingu í fréttum sömu stöðvar vegna sama máls.

Mánudagur 11. júlí

Um miðjan daginn fórum við Ingunn, systir og mamma að ganga í Búðarhrauni á Snæfellsnesi.

Þegar við gengum um hraunið var hringt í mig frá sjónvarpsstöðinni Al Jazeera, en hún er ein virtasta fréttastöðin í Arabaheiminum, til að athuga hvort ég gæti fundið stúdíó og teki þátt í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttatíma stöðvarinnar kl.17 og ræða við þá um tóbaksmálið mitt sem ég flyt á Alþingi.

Bændurnir á Syðri-Knarrartungu í Breiðuvík á Snæfellsnesi, þau Guðjón Jóhannesson og Guðný H. Jakobsdóttir, gátu útbúið stúdíó í eldhúsinu á bænum og opnuðu fyrir Skype-tenginguna sína.

Þar sátum við Guðný og tengdumst beint inn á sjónvarpsfréttatíma Al Jazeera sem milljónir manna horfa á.

Það var skemmtileg og sérstök lífsreynsla að sitja í eldhúsinu á bóndabæ í Snæfellsbæ og tala beint í sjónvarpsfréttatímann líklega til margra milljóna manna um tóbaksmál sem ég flyt á Alþingi Íslendinga.

Þakka ég Guðnýju og Guðjóni fyrir alla veitta aðstoð við að gera útsendinguna mögulega.

Um kvöldið komu systurnar, Olga og Ásdís, líka í heimsókn.

Sunnudagur 10. júlí

Dagurinn nýttist m. a. í að slappa af í sólinni og vinna í tölvunni.

Seinni partinn fórum við mamma út á Snæfellsnes.

Laugardagur 9. júlí

Í gær var húsið á Siglufirði sett á sölu.

Í dag birtist á mbl.is viðtal við mig um matargerð og hollustu sem birt var á s. l. fimmtudag í finnur.is.

Í nótt urðu Heiður og Konni afi og amma þegar Kjartan og Ragga eignuðust dóttur.

Um kvöldið skrapp ég til Heiðar að sjá myndir af nýfæddri sonardótturinni.

Sú litla er mjög falleg og greindarleg stelpa.

Þar sem hún var tekin með keisara er hún alveg slétt og fín.