Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 26. mars-1.apríl 2011

Föstudagur 1. apríl

Kl.8:30 fór ég í klippingu til Lilju í Greiðunni.

Fór síðan til Heiðar að vinna í myndasýningu fyrir kvöldið.

Kl.17 fór 6-S, gamli bekkurinn minn úr MR, í Hólavallakirkjugarð.

Þar nutum við skemmtilegrar leiðsagnar hjónanna, Sólveigar Ólafsdóttur og Heimis Janussonar, en þau þekkja garðinn út og inn.

Síðan lá leiðin í fordrykk og svo í kvöldmat á veitingastaðinn Við Höfnina.

Þar var m.a. myndasýning þar sem sýndar voru gamlar myndir frá ýmsum skemmtiferðum 6-S.

Fimmtudagur 31. mars

Kl.8 stýrði ég fundi kjörnefndar Norðurlandaráðs.

Kl.8:30-11:30 stýrði ég fundi velferðarnefndar Norðurlandaráðs.

Sænski ráðherrann sem sér um innflytjendamál, Erik Ullenhag(integrasjonsminister), sat fyrir svörum á fundinum.

Kl.12:30 heimsóttum við Rinkeby, en þar býr hátt hlutfall innflytjenda.

Þar ræddum við um ýmis verkefni sem snúa að innflytjendamálum.

Kl.17:25 var flug til Köben og þaðan heim.

Var lent í Keflavík um miðnætti.

Sá á netinu að systursonur minn, Þórir Guðmundur sonur Hildar og Þorbjarnar, skoraði ótrúlega flautukörfu í körfuboltakeppni eins og sést í þessari frétt af mbl.is. Magnað!

Miðvikudagur 30. mars

Kl.8:30 var fundur Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Kl.10-12 var fundur stjórnar miðjumanna í Norðurlandaráði.

Í dag kom frétt á ruv.is um svarið sem ég fékk við fyrirspurn minni um gúmmíkurl á gervigrasvöllum og önnur á mbl.is.

Ég tel að svarið sé mjög gott og vænti þess að gúmmíkurl sem inniheldur krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni fasist út í náinni framtíð.

Í staðinn verði notað hættulaust kurl.

Kl.13:30 var kynningarfundur um atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndum.

Kl.14:45-17:00 var fundur miðjumanna í Norðurlandaráði.

Kl.17 hófst sameiginlegur fundur velferðarnefndar, menntamálanefndar og atvinnumálanefndar Norðurlandaráðs þar sem fjallað var um atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndum.

Sat ég í pallborði á fundinum.

Um kvöldið skrapp ég í íslenska sendiráðið og í Nobelshúsið í Stokkhólmi.

Þriðjudagur 29. mars

Kl.7:50 var flug til Stokkhólms, en þar fara fram fundir nefnda Norðurlandaráðs næstu tvo daga.

Í dag var dreift svari á Alþingi við fyrirspurn minni um gúmmíkurli í gervigrasvöllum.

Mánudagur 28. mars

Kl.11 var fundur í forsætisnefnd Alþingis.

Kl.13 var fundur þingflokks framsóknarmanna á Alþingi.

Kl.15 hófst þingfundur.

Kl.17 gafst tími í sjósund en í dag var hitastig sjávar 3,7 gráður.

Sunnudagur 27. mars

Las m.a. umsóknir fyrir úthlutanir úr Norræna menningarsjóðnum og vann í tölvunni.

Kl.18 komu Hákon, Húni og Elín Björk í kjötsúpu og ís.

Laugardagur 26. mars

Kl.14 sýndi ég gestum Alþingi.

Vann síðan í gögnum s.s. fyrir velferðarnefnd Norðurlandaráðs.