Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 2.-8. október 2010

Föstudagur 8. október

Um morguninn lá leiðin norður á Siglufjörð til að vera gestur á Eyþingi, fundi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi.

Þar hlustaði ég m.a. á athyglisvert erindi sem Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands, hélt um aðildarviðræður okkar við ESB.

Stefán Haukur er aðalsamningamaður okkar og hefur á síðustu vikum verið að halda sambærilegt erindi hjá landshlutasamtökum sveitarfélaga um allt land.

Seinni partinn var gerð útför Kristbjargar Marteinsdóttur.

Um kvöldi lá leiðin á Snæfellsnes.

Fimmtudagur 7. október

Kl.8:30 var fundur í heilbrigðisnefnd Alþingis þar sem við fengum útskýringar heilbrigðisráðherra og embættismanna  hans á hagræðingartillögum á heilbrigðisstofnunum, m.a. á landsbyggðinni.

Kl.10:30 hófst þingfundur á Alþingi.

Mælti ég fyrir frumvarpi mínu um þingsköp sem felur í sér að ræðutími yrði fyrirfram ákveðinn í hverju máli fyrir sig á þinginu svo bæta mætti vinnubrögð og umræðuhefð.

Hér er framsöguræðan.

Hér er skrifuð frétt  af ruv.is um frumvarpið og hér önnur frétt af eyjan.is.

Þingmenn sem tóku til máls voru almennt jákvæðir á garð málsins.

Kl.13 var fundur í forsætisnefnd Alþingis.

Kl.14 hófst utandagskrárumræða sem ég tók þátt í um álag á störf Hæstaréttar.

Kl.20:00-22:30 voru styrktartónleikar sjóðsins Þú getur! í Vídalínskirkju í Garðabæ.

Miðvikudagur 6. október

Kl.10 funduðu fulltrúar úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs ásamt Auði Guðjónsdóttur, Ingvari Hákoni Ólafssyni og Ingimari Einarssyni um málefni mænuskaðaðra.

Í hádeginu fórum við Hákon í myndatöku og til sýslumannsins í Kópavogi til að sækja um leyfi fyrir hann til að taka ökupróf .

Kl.13 var þingflokksfundur framsóknarmanna.

Kl.14 hófst þingfundur á óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra. 

Kl.17 hófust tunnumótmæli á Austurvelli framan við Alþingi í tilefni þess að 2 ár eru liðin frá því að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, ávarpaði þjóðina vegna efnahagshrunsins.

Þriðjudagur 5. október

Kl.10-11 kynnti ég Framsóknarflokkinn fyrir nemendum í MH.

Í dag var þinghúsið hreinsað að utan eftir mótmælin á Austurvelli í gær.

Kl.13-14 var þingflokksfundur.

Kl.14 hófst umræða um fjárlagafrumvarpið á Alþingi.

Mánudagur 4. október

Morguninn nýttist m.a. í að fara með bílinn í skoðun.

Seinni partinn fórum við Hákon í æfingaferð fyrir bílprófið.

Kl.20 hófst stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

Um 8000 manns mótmæltu fyrir utan Alþingi á meðan meðal annars með trumbuslætti og eggjakasti.

Hér í þessari frétt má sjá myndskeið sem sýnir hverngi staðan var á Austurvelli.

Sunnudagur 3. október

Kl.10 fór þingflokkur framsóknarmanna og Landsstjórn í félagsheimilið á Kirkjubæjarklaustri að sjá kvikmynd um Skaftárelda.

Einnig flutti Jón Helgason, fyrrrum þingmaður og ráðherra, erindi um stöðu mála á svæðinu.

Um miðjan daginn lá leiðin tilbaka á höfuðborgarsvæðið.

Kl.15 fórum við Ingunn systir og Simmi í göngu í tilefni stofnunar minningarsjóðs Margrétar Oddsdóttur, skurðlæknis, sem lést úr brjóstakrabbameini en hún hefði orðið 55 ára í dag.

Hér er linkur á www.brjost.is þar  sem nálgast má allar upplýsingar um sjóðinn.

Um kvöldið splæstum við Hákon á okkur kvöldmat frá Krua Thai.

Laugardagur 2. október

Kl.9:15 hófst sameiginlegur fundur þingflokks framsóknarmanna og Landsstjórnar.

Eftir hádegi sýndu sveitastjórnarmenn í Vík okkur íþróttamiðstöðina, landbrotið við ströndina, skipið Skaftfelling og Brydebúð.

Síðan heimsóttum við Guðrúnu Sigurðardóttur, glerlistakonu, en hún var með opið hús í tilefni menningarhátíðarinnar, Regnbogans.

Einnig heimsóttum við Víkurprjón þar sem Þórir Kjartansson, framkvæmdastjóri, tók á móti okkur, en fyrirtækið er 30 ára um þessar mundir.

Seinni partinn ókum við á Kirkjubæjarklaustur.

Kl.19:15 hófst hátíðarkvöldverður á hótelinu á Kirkjubæjarklaustri með trúnaðarmönnum framsóknarmanna á svæðinu.