Dagbók Sivjar Friðleifsdóttur

Vikan 25.-sept.-1.okt. 2010

Föstudagur 1. október

Um morguninn fór ég í viðtal um útivistarmál.

Kl.12:15 hófst fundur í Rótarýklúbbi Seltjarnarness.

Kl.13:30 gengu þingmenn til Dómkirkjunnar áður en Alþingi var sett.

Nokkur hópur fólks mótmælti á Austurvelli og var m.a. rúða brotin í Dómkirkjunni í miðri messu og kirkjan grýtt.

Einnig var eggjum og tómötum kastað í þinghúsið.

Kl.16 var hlutast til um sæti.

Dró ég sæti 14 og sit við hlið Valgerðar Bjarnardóttur.

Í öðrum þjóðþingum sitja þingmenn oftast í mörg ár í sömu sætum og raðast eftir kjördæmum eða flokkahópum.

Við höfum þá góðu venju að hlutast til um sæti árlega.

Seinni partinn fórum við Hildur Helga Gísladóttir, formaður Kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, samferða í Vík í Mýrdal.

Þar hefst sameiginlegur fundur þingflokks framsóknarmanna og Landsstjórnar á morgun.

Fimmtudagur 30. september

Var mestan hluta dagsins í störfum á skrifstofunni.

Kl.19:30 var athöfn í Skógræktarstöðinni Þöll í Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir var heiðruð af Krabbameinsfélagi Hafnarfjarðar í tilefni Bleikra daga félagsins.

Síðan stóð Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir kvöldgöngu um skógrækt sína.

Að lokinni göngu var boðið upp á kakó, kaffi og kökur.

Miðvikudagur 29. september

Dagurinn nýttist í vinnu á skrifstofunni.

Gekk frá þeim málum sem ég mun endurflytja í upphafi næsta þings og sendi þau í skjalavinnsluna.

Seinni partinn tókum við Hákon æfingarúnt, en hann er að æfa sig fyrir bílprófið.

Kl.18:30-20:40 var fundur í stjórn Sundsambands Íslands(SSÍ) í Laugardalnum.

Þriðjudagur 28. september

Kl.10:30 hófst fundur á Alþingi.

Kl.12 var opinn fundur á Hótel Borg þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fór yfir stöðu mála.

Kl.14:30 var þingflokksfundur framsóknarmanna á Alþingi þar sem við ræddum um komandi atkvæðagreiðslu.

Kl.16 var atkvæðagreiðsla um landsdóm.

Hér sést hvernig þingmenn greiddu atkvæði.

Mánudagur 27. september

Kl.10:30 hófst fundur á Alþingi.

Kl.13:30-15:00 var mín vakt á forsetastóli.

Kl.17:30 fórum við mamma í móttöku á Bessastaði í tilefni þess að nýr norskur sendiherra, Dag Wernö Holter, afhenti forseta Íslands trúnaðarbréf sitt.

Um kvöldið eldaði ég fisk fyrir strákana.

Sunnudagur 26. september

Fyrri partur dags nýttist m.a. í sundi með Heiði og Önnu Hrönn.

Seinni hluti dagsins fór aðallega í að taka upp kartöflur.

Laugardagur 25. september

Kl.11 var morgunkaffi framsóknarmanna í félagsheimilinu á Digranesvegi 12 í Kópavogi.

Nýtti síðan hluta dagsins í heimsóknir.